Tekjur Landsvirkjunar voru í methæðum á síðasta ári og námu 72,6 milljörðum króna en um var að ræða nærri fjórðungs tekjuvöxt frá fyrra ári. Þá nam hagnaður síðasta árs 19,3 milljörðum króna og jókst um 89% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 29,5 milljörðum króna og hækkaði um 63,7% frá fyrra ári. Þá lækkuðu nettó skuldir um 22,8 milljarða frá áramótum og voru í lok síðasta árs 195,1 milljarður króna. Í ljósi þessarar myndarlegu afkomu áformar stjórn Landsvirkjunar að leggja til við aðalfund um 15 milljarða króna arðgreiðslu til eigandans, íslenska ríkisins, vegna síðasta árs. Er um að ræða hæstu arðgreiðslu í sögu Landsvirkjunar en næsthæsta arðgreiðslan, sem greidd var út vegna ársins 2019, nam rúmlega 10 milljörðum króna.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir uppgjörið marka ákveðin tímamót þar sem markmið sem fyrirtækið hafi sett sér fyrir u.þ.b. átta árum - og snerist um að Landsvirkjun næði svipuðum fjárhagslegum styrk og orkufyrirtækin á Norðurlöndunum - hafi nú verið náð. „Þegar við settum okkur þetta markmið var himinn og haf milli Landsvirkjunar og þessara félaga hvað varðaði lánshæfismat, efnahagsreikning o.s.frv. Við settum okkur markmið um að komast á svipaðar slóðir og þessi félög og með þessu uppgjöri má segja að við höfum náð því markmiði."

Hörður bendir á að í dag sé Landsvirkjun með sama lánshæfismat hjá Standard og Poor's og sænska orkufélagið Vattenfall og Ørsted frá Danmörku, BBB+. Þá sé Landsvirkjun einum flokki ofar en Fortum frá Finnlandi, meðan Statkraft frá Noregi er einum flokki ofar. Hann segir lykilinn á bakvið þennan árangur hafa verið markvisst átak í að lækka skuldir sem aftur á móti hafi orðið til þess að Landsvirkjun hefur greitt út fremur lágar arðgreiðslur. „Auk þess hefur verið einblínt á aðgerðir sem hafa miðað að því að bæta afkomu félagsins. Þær aðgerðir hafa sömuleiðis heppnast vel, sem sést á því að hagnaður fyrir fjármagnsliði hefur farið stigvaxandi undanfarin ár. Það er mjög ánægjulegt að þessi markmið sem við settum okkur fyrir nokkrum árum, og mörgum þótti mjög bjartsýn, hafi náðst."

Aukið púður í arðgreiðslur

Á árunum 2012-2021 ráðstafaði Landsvirkjun fjármagni sínu með þeim hætti að 48% sjóðstreymis, eða 158 milljarðar króna, voru nýtt til fjárfestinga, 42%, eða um 139 milljarðar króna, voru nýtt til að greiða niður skuldir og loks var 10%, eða um 32 milljörðum króna, ráðstafað í arðgreiðslur. Hörður segir að nú þegar markmið félagsins um að ná svipuðum fjárhagslegum styrk og orkufélögin á Norðurlöndunum sé í höfn muni Landsvirkjun leggja minna púður í að greiða niður skuldir og ráðstafa í staðinn meira fjármagni í arðgreiðslur. „Nú getum við farið að auka arðgreiðslurnar þannig að eigandinn, íslenska ríkið, fái meira fyrir sinn snúð. Þrátt fyrir það munum við að sjálfsögðu halda áfram að fjárfesta og greiða niður skuldir. Þegar við settum okkar fyrrnefnt markmið fyrir átta árum síðan var m.a. stefnt á að arðgreiðslan myndi verða á bilinu 10-20 milljarðar króna á ári eftir að markmiðinu væri náð. Því er ánægjulegt að lagt hafi verið til að arðgreiðsla vegna síðasta árs muni nema 15 milljörðum króna."

Hörður bendir þó á að arðgreiðslan ráðist fyrst og síðast út frá afkomunni sem geti verið sveiflukennd milli ára. „Grundvallaratriðið er að skuldastaðan er komin á þær slóðir að það er engin ástæða til að hafa jafn hraða niðurgreiðslu á lánum og verið hefur undanfarin ár. Skuldsetningarhlutfallið (Nettó skuldir/EBITDA) hjá okkur í dag er í kringum 3,5, sem er mjög heilbrigð skuldsetning. Hlutfallið var árið 2009 yfir 10. Skuldsetningarhlutfallið mun áfram fara lækkandi en ekki með sama hraða og verið hefur. Eigendur fyrirtækisins hafa verið mjög þolinmóðir meðan við lækkuðum skuldirnar og við erum stolt af því að fyrirtækið sé komið á þann stað að geta greitt meiri arð."

Nánar er rætt við Hörð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .