Í Viðskiptablaðinu, sem kom út á fimmtudaginn, er samantekt á nokkrum stórum verklegum framkvæmdum, sem framundan eru á næstu þremur árum. Þar kemur fram að Samanlögð fjárfesting stærstu verkefnanna nemur tæpum 840 milljörðum króna .

Pálmar Harðarson, framkvæmdastjóri Þingvangs, segist ekki alveg sjá hvaða verktakar eiga að taka þetta allt að sér.

„Það er brjálað að gera hjá öllum nú þegar,“ segir hann. „Ég sé þetta ekki gerast allt saman öðruvísi en að hér verði flutt inn mikið erlent vinnuafl. Sjálfur hef ég eingöngu verið að byggja íbúðir og leigja þær eða selja en ég ætla að skala það allt niður og vera að minnsta kosti 50% í verktöku . Þingvangur mun ekki vera í vegagerð eða röralögnum, það eru fyrirtæki eins og til dæmis Ístak og ÍAV en ég held að þau hafi nóg að gera á Keflavíkurflugvelli og við byggingu nýs Landspítala.“

Spurður hvort erlend verktakafyrirtæki gætu ekki komið svarar Pálmar: „Ég held að þau séu ekki að fara að koma hingað. Ég stórefa það allavega.“

Seinkun á framkvæmdum

Karl Andreassen , framkvæmdastjóri Ístaks, segir að enn sé hægt að manna verkefni hér heima. Að hluta til sé það vegna þess að verið sé að seinka framkvæmdum.

„Seinkun á hönnunarvinnu, meðal annars vegna nýs Landspítalans, þýðir að verið er að ýta framkvæmdunum aftar. Það átti að vera stórt útboð vegna Landspítalans í mars en það verður ekki fyrr en á seinni hluta þessa árs. Svipaða sögu má segja um stór verkefni hjá Isavia og byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans.

Við erum með hátt í 400 manns í vinnu og það er mestmegnis erlent vinnuafl. Þannig höfum við getað tekist á við þau verkefni sem hafa verið í gangi. Ég sé fyrir mér að það þurfi að flytja inn enn meira vinnuafl og það er aðallega vegna þess að það er ekki hægt að fá Íslendinga í vinnu. Iðngreinar hér heima hafa verið sveltar og ekki hægt að fá unga menn í þessa vinnu. Flestir af okkar íslensku iðnaðarmönnum eru 45 ára eða eldri og margir þeirra orðnir verkstjórar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .