Brottfarir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli voru 42.600 í júní samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Voru þær sjö sinnum fleiri en í júní 2020, þegar brottfarir voru um sex þúsund, að því er segir í tilkynningu Ferðamálastofu.

Fjölmennastir farþega voru Bandaríkjamenn sem voru um helmingur brottfara. Þá voru Pólverjar um 9% af heild, Þjóðverjar um 8%, Bretar um 5% og Frakkar um 4%.

Brottfarir Íslendinga í júní voru meira en tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra, um 13.500 í ár samanborið við um 5.300 í fyrra.

78% fækkun milli ára frá áramótum

Frá áramótum hafa tæplega 75 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi, en það er um 78% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra þegar brottfarir erlendra farþega voru tæplega 342 þúsund, en fækkunin skýrist væntanlega helst af því að fyrstu mánuði síðasta árs var áhrifa faraldursins ekki enn farið að gæta.

Sömu sögu er að segja af brottförum Íslendinga, þær telja um 32.400 frá áramótum eða um 66% færri en á sama tímabili í fyrra.