Daði Kristjánsson hefur látið af störfum hjá Fossum mörkuðum. Hann tekur við sem framkvæmdastjóri hjá nýstofnuðu félagi, Viska Digital Assets ehf., sem vinnur að því að koma á fót sérhæfðum fagfjárfestasjóði með áherslu á rafmyntir og bálkakeðjutækni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Við starfslok Daða kemur Arnar Geir Sæmundsson yfir í teymi markaðsviðskipta hjá Fossum mörkuðum eftir farsælan feril í teymi fyrirtækjaráðgjafar Fossa.

Daði Kristjánsson:

„Ég kom til Fossa markaða árið 2018 og tími minn hjá félaginu hefur verið afskaplega skemmtilegur. Hjá Fossum starfar þéttur hópur af hæfileikaríku fólki sem náð hefur góðum árangri eins og sést á sífellt meiri umsvifum félagsins á verðbréfamarkaði. Eftir 15 ár við verðbréfamiðlun þykir mér tími kominn til að breyta til. Ég hef varið stórum hluta af frítíma mínum síðustu ár í að kynna mér bálkakeðjutækni og fjárfest í rafmyntum. Þetta er ört vaxandi eignaflokkur þar sem ég sé mikil tækifæri á næstu árum.“

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa:

„Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Daða fyrir samstarfið og verðmætt framlag til starfsemi Fossa. Eins óska ég honum velgengni á nýjum og spennandi vettvangi. Vonandi ná leiðir okkar að liggja saman á ný þegar fram líða stundir. Um leið vil ég bjóða Arnar Geir velkominn í teymi markaðsviðskipta þar sem ég er sannfærður um að hann á eftir að njóta sín með öflugu samstarfsfólki.“

Áður en Arnar Geir kom til starfa hjá Fossum fyrir rúmu ári síðan starfaði hann á fjárfestingasviði TM og sem forstöðumaður fjárstýringar hjá Lykli fjármögnun. Þar áður starfaði hann í markaðsviðskiptum Arctica Finance og H.F. Verðbréfum hf. Hann er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavik og Masters in Finance gráðu frá London Business School, auk þess að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.