Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í meiðyrðamáli tveggja manna gegn Sigmundi Erni Rúnarssyni, fyrrverandi ritstjóra Hringbrautar. Þarf Sigmundur að greiða mönnunum tveimur 250 þúsund krónur hvorum í miskabætur auk þess að þrenn ummæli voru dæmd dauð og ómerk.

Málið laut að ummælum í fréttaflutningi af Hlíðamálinu svokallaða en umfjöllunarefni þeirra voru meint kynferðisbrot í íbúð í Hlíðunum. Í málinu var stefnt vegna átta ummæla en héraðsdómur féllst á að ómerkja þrjú þeirra.

Óumdeilt var í málinu að Sigmundur Ernir hafði ekki skrifað umræddar fréttir. Umræddar fréttir höfðu hins vegar ekki verið merktar blaðamanni sérstaklega og bar Sigmundur því ábyrgð á þeim sem ritstjóri og ábyrgðarmaður vefsins.

Í dómi Landsréttar kom fram að þótt ekki væri hægt að dæma Sigmund til refsingar vegna ummælanna, mögulegt brot var fyrnt þegar málið var höfðað, girti það ekki fyrir að unnt væri að dæma hann til greiðslu miskabóta vegna þeirra.

Að mati Landsréttar var fréttaflutningurinn liður í opinberri umræðu um kynferðisbrot og meðferð þeirra. Slík umfjöllun ætti ríkt erindi í þjóðfélagsumræðu og yrði að játa fjölmiðlum nokkuð svigrúm við að miðla slíkum upplýsingum.

Þær fréttir sem voru grundvöllur málsins voru ekki endursagnir Hringbrautar á fréttum annarra heldur hafði blaðamaður vefsins fengið skilaboð frá maka nemanda við Háskólann í Reykjavík en samkvæmt fréttaflutningi dagana á undan átti meint brot að hafa átt sér stað í kjölfar skemmtunar á vegum skólans. Blaðamaðurinn hafði þá samband við fleiri nemendur og þeir hefðu staðhæft við hann að mennirnir tveir „hafi haft fleiri fólskuverk í hyggju og að naumlega hefði verið komið í veg fyrir þriðju nauðgunina.“

Fréttamaðurinn bar umræddar sögusagnir ekki undir mennina og reyndi ekki að hafa uppi á þriðja mögulega brotaþolanum líkt og það er orðað í dómi Landsréttar.

„Kjarni málsins er að fréttamaðurinnreyndi ekki með neinum hætti að renna  stoðum  undir sögusagnirnar,  auk  þess  sem  fyrirsögn  fréttarinnarbar  með  sér staðhæfingu um að komið hefði verið í veg fyrir þriðja brotið. [...] Í því máli sem hér er til úrlausnar skorti verulega á að uppfylltar væru kröfur um hlutlæg og nákvæm vinnubrögð við vinnslu fréttarinnar svo sem mælt er fyrir um í [lögum um fjölmiðla].  Með  þeim  aðdróttunum  sem  fram komu í fyrrgreindum ummælum í frétt Hringbrautar var vegið alvarlega að persónu og æru stefndu sem falla undir friðhelgi einkalífs þeirra,“ segir í dóminum.

Dómur um ómerkingu þriggja ummæla, 250 þúsund krónur í miskabætur til hvors mannsins um sig og birtingu forsendna og dómsorðs á vef Hringbrautar standa því óhögguð. Verði dómsorð og forsendur ekki birtar á vefnum mun Hringbraut þurfa að greiða 50 þúsund króna dagsektir þar til dómsorðinu verður framfylgt.