Davíð Helgason, stofnandi Unity, festi kaup á jörðinni Nesvík á Kjalarnesi fyrir 535 milljónir króna í janúar síðastliðnum. Félag Davíðs Foobar Nesvík ehf., sem áður hét EA25 ehf., er skráð fyrir kaupunum en seljandinn er félagið ED Nesvik ehf. sem er í 95% eigu fjárfestisins Eggerts Þórs Dagbjartssonar og 5% eigu fasteignaþróunarfélagsins Íslenskra fasteigna. Á heimasíðu Foobar kemur fram að verið sé að þróa jörðina undir sköpun og atvinnustarfsemi.
ED Nesvik keypti jörðina á 302,5 milljónir króna af félaginu Nesvík fasteignir ehf. sem er í eigu bræðranna Kristins Gylfa og Björns Jónssona, en þeir bræður áttu og ráku Brúnegg á árum áður. Kaupsamningi þess efnis var þinglýst 17. júlí 2020 en í samtali við Viðskiptablaðið tæplega ári áður sagði Eggert Þór frá því að hann og Íslenskar fasteignir hefðu gengið frá kaupsamningi á „mjög stóru landi" í útjaðri Reykjavíkur þar sem hugmyndin væri að koma upp margs konar afþreyingu sem höfði til ferðamanna. Var verkefnið þarna á algjöru byrjunarstigi og taldi Eggert Þór því ekki tímabært að segja nánar frá því að svo stöddu.
Í byrjun janúar árið 2020 greindi Fréttablaðið svo frá því að Íslenskar fasteignir ásamt hópi fjárfesta, þar á meðal Eggert Þór, stefndi á að reisa hundrað herbergja hótel í Nesvík á Kjalarnesi. Skömmu síðar skall Covid-19 faraldurinn á og ekki ólíklegt að verkefnið hafi verið sett á ís í kjölfarið. Fór það svo að lokum að jörðin var eins og fyrr segir seld Davíð Helgasyni á 232,5 milljónum krónum hærra verði en greitt var fyrir hana um einu og hálfu ári áður. Eggert Þór og Íslenskar fasteignir þekkjast vel eftir að hafa unnið saman að uppbyggingu lúxusíbúða og Edition hótelsins í Austurhöfn í miðbæ Reykjavíkur.
40 hektara land
Það var sannarlega ekki ofsögum sagt hjá Eggerti að umrætt land sé stórt, en samkvæmt kaupsamningi er það alls 40 hektarar með heildarlóðamat upp á 24,1 milljón króna. Á landinu standa tvær fasteignir. Er annars vegar um að ræða 223,2 fermetra sumarbústað með fasteignamat upp á 93,6 milljónir króna og hins vegar 49,8 fermetra sumarbústaður með fasteignamat upp á 29 milljónir króna. Stærri bústaðurinn var byggður árið 1973 og sá minni árið 1967.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:
- Fjallað um vöxt og framtíðaráform Kerecis.
- Eldur Ólafsson, framkvæmdastjóri AEX Gold, segir umræðuna hafa farið í hring á áratug og virðist fólk vera farið að sjá kosti kjarnorkuvera aftur.
- Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fer yfir stöðu efnahagsmála og líklegar breytingar á efnahagsskipan vesturlanda vegna stríðsins og faraldursins.
- Sagt er frá hundruð milljóna tapi þeirra sem fjármögnuðu kaup lóðar sem reyndist strangari skilyrðum háð en lagt var upp með.
- Umfjöllun um flugmarkaðinn þar sem vænta má aukinnar samþjöppunar eftir faraldurinn.
- Viðskiptahraðallinn Hringiða, sem Klak - Icelandic Startups stendur fyrir, byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.
- Nýr miðbær mun rísa á Egilsstöðum.
- Kristín Unnur Mathiesen, sem gekk nýverið til liðs við Fossa markaði, ræðir nýja starfið.
- Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem ræðir Kristrúnu Frostadóttur og Samfylkinguna.
- Óðinn skrifar um ríkisforstjóra sem eru úti að aka.