Delta flugfélagið þakkar lægra eldsneytisverði og aukinni eftirspurn að félagið skilaði auknum hagnaði á fjórða ársfjórðungi síðasta uppgjörsárs.

Nam hagnaður flugfélagsins 1,1 milljarði Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 135,3 milljörðum íslenskra króna, sem er aukning frá rétt rúmlega 1 milljarði dala á sama tíma fyrir ári.

Er það fimmtungi meira en efri mörk áætlana félagsins gerðu ráð fyrir, en tekjurnar jukust um 6,5% í 11,4 milljarða á ársfjórðungnum. Þar með lauk tíunda árinu í röð sem félagið skilar hagnaði, sem er met í iðnaði sem einkennist af miklum sveiflum í hagnaði og rekstraraðstæðum.

Félagið sem staðsett er í Atlanta gæti þó séð fram á aukinn kostnað vegna kjaramála og mögulega minnkandi eftirspurn eftir ferðum, því þó eftirspurnin í heiminum virðist vera enn vera að aukast dregur úr aukningunni að því er WSJ greinir frá.

Þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 0,50%, í 61,78 dali það sem af er þessa viðskiptadags í Bandaríkjunum.