Enginn í stjórn Orkuveitunnar greiddi atkvæði gegn endurkaupunum á húsinu við Bæjarháls þegar stjórn hennar ákvað að kaupa það aftur af Fossi fasteignafélagi fyrir 5,5 milljarða. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna og Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vék af fundi þegar málið var afgreitt. Hún hefur ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins hjá stjórn OR vegna setu hennar í stjórn lífeyrissjóðs sem kemur hugsanlega að málinu.

Aðrir í stjórn Orkuveitunnar samþykktu kaupin. Ekki er ljóst hvenær liggur fyrir hver framtíð hússins verður, en verið er að skoða hvaða kostir eru í stöðunni en kaupin eru fyrsta skrefið í að ákveða hver framtíð hússins verður. Í tilkynningu frá Orkuveitunni er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR, að í samskiptum við eigendur Foss hafi fljótlega komið í ljós vilji beggja til að ná samkomulagi. „Deilur eða málarekstur gætu kostað báða aðila mikið fé og kallað á áralanga óvissu um sjálft meginefni málsins; heilsuspillandi hús sem er engum til gagns. Að vel athuguðu máli varð það nið­urstaða okkar að reyna að eignast húsin aftur. Verkefnið er snúið. Margir kostir eru til skoðunar og með þessu samkomulagi er valið okkar,“ segir í tilkynningunni.

Skammtímaviðgerðir ekki í boði

Saga hússins er dálítil hrakfallasaga, sem kostaði langtum meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Árið 2015 varð starfsfólk í húsinu vart við raka og myglu. Mat á eðli og umfangi skemmdanna leiddi í ljós að skemmdirnar voru ekki ekki bundnar við ákveðin svæði í húsinu heldur voru allir útveggir þess skemmdir. Hins vegar var vitað að húsið lak árið 2004 og árið 2009. Árið 2016 var reynt að gera við húsið en viðgerðirnar skiluðu ekki tilætluðum árangri. Viðgerðirnar kostuðu 460 milljónir.

Í lok ágúst kynnti Orkuveitan sex mögulegar lausnir á vanda hússins. Einn kostanna hefur nokkurn veginn verið sleginn út af borðinu en það er sá kostur að gera við núverandi veggi fyrir um 1,5 milljarða króna. Sú viðgerð þykir ekki vænleg þar sem hún myndi ekki leysa vandann nema til skamms tíma.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur hinum kostunum fimm ekki verið raðað upp eftir fýsileika. Tveir þeirra eru að byggja nýja útveggi og myndu kosta 2,4 til 2,9 milljarða. Tveir til viðbótar væru að rífa vesturhluta hússins, þann sem skemmdur er, og flytja þá starfsemi sem er í því í önnur hús á lóðinni eða reisa nýtt á grunni þess gamla. Kostnaður er áætlaður á bilinu 2,15 til 3 milljarðar. Fimmti og jafnframt frumlegasti kosturinn sem er til skoðunar er að byggja „regnkápu“ úr gleri yfir húsið fyrir 1,7 milljarða

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .