Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar um að Tryggingastofnun ríkisins hafi verið óheimilt að skerða greiðslur á sérstakri framfærsluuppbót vegna búsetu erlendis. Tryggingastofnun ber að greiða dánarbúi stefnandans, sem lést í desember síðastliðnum, 676 þúsund krónur með dráttarvöxtum frá október 2016. Hæstiréttur kvað upp dóminn um tvöleytið í dag.

Í málskotsbeiðni Tryggingastofnunar kom fram að dómur Landsréttar hafi falið í sér að Tryggingastofnunin gæti þurft að greiða allt að 4 milljarða króna til 2-3 þúsund einstaklinga auk þess sem árlegar greiðslur myndu hækka um 600-700 milljónir króna.

Málið snerist um hvort TR hefði verið heimilt, á árunum 2011 til 2015, að reikna greiðslur til viðkomandi einstaklings, á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu, í samræmi við lög um félagslega aðstoð, í samræmi við búsetu hér á landi. Stefnandinn hafði búið í Danmörku um hríð áður en hún var metin til 75% varanlegrar örorku árið 2011.