Hæsta fermetraverð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu fékkst fyrir 21,1 fermetra íbúð við Hofteig 32. Íbúðin er að miklu leyti undir súð en gólfflötur hennar er um 45 fermetrar. Skýrir það hátt fermetraverð. Athyglisvert er að eignir við Austurhöfn eru nánast alls ráðandi á listanum yfir hæsta fermetraverð íbúða. Um 85% íbúða á listanum eru við Austurhöfn . Um er að ræða nýbyggingar og margar íbúðanna sem seldar hafa verið eru ekki fullbúnar.
Hæsta verðið árið 2021 fékkst fyrir eign við Bryggjugötu 4 eða 480 milljónir króna. Þess má geta að þótt einungis þrír mánuðir séu liðnir af árinu 2022 hefur þetta met þegar verið slegið en á mánudaginn var greint frá því að Jónas Hagan Guðmundsson fjárfestir hefði fest kaup á 354 fermetra þakíbúð við Austurhöfn , sem er stærsta íbúðin á svæðinu. Kaupverðið nam 620 milljónum króna.
Árið 2021 er fyrsta árið þar sem hægt er að sjá raunverð á öllum fasteignum utan þeirra sem eru í félögum og þau seld í stað fasteignanna sjálfra. Það er hins vegar óalgengt varðandi íbúðarhúsnæði en algengara hvað varðar atvinnuhúsnæði.
Umfjöllunin byggir á upplýsingum frá Þjóðskrá. Þess ber þó að geta að gagnagrunnurinn er ekki fullkominn. Sem dæmi getur verið misræmi á milli birtrar stærðar eignar í fasteignaskrá og raunverulegrar stærðar.
Nánar er fjallað um málið í
Fasteignamarkaðnum
, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir
Tölublöð
, aðrir geta skráð sig í
áskrift hér
.