Skiptar skoðanir eru um frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um bann við leit og vinnslu olíu. Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs sem heyrir undir Orkustofnun, segir frumvarpið í raun ekki fela í sér miklar fórnir í ljósi þess að engar þekktar olíulindir séu raunverulega til staðar í augnablikinu.

„Þetta er fyrst og fremst yfirlýsing um að þessi orkugjafi henti ekki markmiðum og stefnu íslenskra stjórnvalda. Við höfum nágranna í Noregi sem vinna olíu í miklum mæli en eru á sama tíma fremstir í flokki í orkuskiptum. Það hefur reynst þeim erfitt að skilgreina sig og hampa þeirri miklu vinnu sem þeir hafa náð í orkuskiptum því á hinum endanum eru þeir stór framleiðandi jarðefnaeldsneytis," segir Sigurður.

Hann er jafnframt óviss um hvort olíuleit í íslenskri lögsögu sé hagkvæm. „Þetta er dýrt svæði. Þó svo að olíuverð sé mjög hátt um þessar mundir eru ýmsir kraftar til staðar sem gætu keyrt það langt niður líkt og við upplifðum í heimsfaraldrinum. Innan einhverra ára mun bíta á eftirspurnarhliðina og sveiflur í eftirspurn, t.d. vegna orkuskipta, bíta fyrst á dýrustu framleiðslunni."

Að hans sögn hafi lönd á borð við Rússland og Sádi-Arabíu mikið þol fyrir lágu olíuverði vegna lægri framleiðslukostnaðar, en á öðrum stöðum verði óhagkvæmt að framleiða og selja olíu þegar verðið fari niður fyrir ákveðin mörk.

„Framleiðslukostnaður yrði mjög hár á Íslandi. Innan olíugeirans hafa Sádi-Arabía og Rússland reynt að taka olíu framleidda með bergbroti (e. fracking) út af markaði, því sú framleiðsla í Bandaríkjunum hefur komið sterk inn en hefur minna verðþol."

Hann bætir við að fyrstu olíudroparnir úr íslenskri lögsögu væru að minnsta kosti áratug frá því að raungerast og á þeim tíma sé alls kostar óvíst hve mikil eftirspurnin verði, sem geri það að verkum að framleiðendurnir með lægsta kostnaðinn muni standa uppi sem síðustu framleiðendurnir á markaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .