Styr hefur staðið um eignarhald HS Orku allar götur síðan ríkið og sveitarfélög seldu fyrirtækið til einkafjárfesta árið 2007. Öldurnar lægði þegar 14 lífeyrissjóðir keyptu ríflega þriðjung hlutafjársins í gegnum félagið Jarðvarma árið 2011. Óvissa var þó áfram um hvernig hluthafahópurinn  kæmi til með að líta út í framtíðinni því  nokkur ár eru síðan ljóst var að uppstokkun í eignarhaldinu væri á dagskrá.

Mikil viðskipti voru með hlutafé og eignir HS Orku í síðustu viku og að þeim loknum er félagið nú til helminga í eigu annars vegar 14 íslenskra lífeyrissjóða og hins vegar breska sjóðsins Ancala Partners. Davíð Rúdólfsson, stjórnaformaður Jarðvarma, sem fer með hlut lífeyrissjóðanna, segir að eftir viðskiptin sé langvinn óvissa um eignarhald HS Orku að baki og félagið sé komið í eigu fjárfesta sem hyggjast byggja upp til langs tíma. Hann segir jafnfram að langur aðdragandi viðskiptanna hafi vissulega skapað óæskilega óvissu en það hafi líka haft ákveðna kosti í för með sér.

„Það má segja að á undanförnum árum hafi verið óþarflega miklar og tíðar þreifingar um mögulega uppstokkun á eignarhaldi félagsins. Þetta hefur ekki verið heppilegt fyrir félagið og starfsfólk þess, sem og fyrir okkur sem hluthafa. Þessi viðskipti marka því tímamót. Ekki eingöngu hefur óvissu um eignarhaldið verið eytt heldur hefur samsetning hluthafahópsins einnig verið breytt og eftir viðskiptin ríkir meira jafnvægi milli eigenda í ákvörðunartökum. Þá teljum við að báðir þessir eigendur séu nægilega sterkir til þess að styðja við félagið í þeim vexti sem áformaður er á næstu árum.

Ferlið, sem lauk með kaupum Jarðvarma og Ancala í síðustu viku, hófst í upphafi árs 2018 þegar Innergex kom inn í félagið. Eðlilega vissum við ekki þá hvaða þýðingu innkoma þeirra myndi hafa en þegar líða fór á árið var ljóst að töluverð líkindi væru á því að Innergex hefði hug á að selja sinn hlut í félaginu,“ segir Davíð.

Undirbúningur og samstarf

„Við hófum strax að undirbúa okkur fyrir þennan möguleika og höfum nýtt tímann vel. Forkaupsréttur okkar hefur legið fyrir frá upphafi en við vissum að til þess að geta nýtt hann yrðum við að vera vel undirbúnir. Okkar vinna hefur annars vegar falist í að gaumgæfa á hvaða verði Jarðvarmi, og þeir 14 sjóðir sem standa að félaginu, væru tilbúnir að fjárfesta frekar í HS Orku. Og hins vegar að velja okkur heppilegan meðfjárfesti inn í félagið til framtíðar.

Við lögðum mikla vinnu í að finna út hvers konar fjárfestir væri heppilegastur og reyndum að kortleggja eins ítarlega og okkur var unnt alla þá aðila sem lýst höfðu áhuga á félaginu. Við hittum alla sem óskuðu eftir fundi með okkur og gátum þannig kynnt okkur hugmyndir og framtíðarsýn þeirra fyrir HS Orku. Ancala Partners var einn af þeim aðilum sem okkur þótti áhugaverður kostur, en Ancala er öflugt sjóðsstýringarfyrirtæki sem býr yfir mikilli sérþekkingu á fjárfestingum í innviðum og orkumarkaði.

Hið formlega söluferli hjá Innergex á 53,9% eignarhlut í HS Orku hófst í október 2018. Því ferli lauk endanlega í síðustu viku þegar Jarðvarmi nýtti sér forkaupsrétt sinn. Á sama tíma keypti Jarðvarmi einnig 12,7% hlut fagfjárfestasjóðsins ORK í félaginu. HS Orka var þá að fullu í eigu Jarðvarma sem síðan seldi Ancala Partners helmings hlut á móti okkur. Samhliða var tekin ákvörðun um að 30% eignarhlutur HS Orku í Bláa lóninu yrði færður yfir í sérstakt félag enda er rekstur Bláa lónsins mjög ólíkur og alls ótengdur HS Orku,“ segir Davíð.

Verðmæti og vaxtartækifæri

Eins og Davíð nefnir var töluverður áhugi á HS Orku sem fjárfestingakosti og meðal áhugasamra voru stórir alþjóðlegir sjóðir með mikið fjármagn á bak við sig. Þegar svo háttar vaknar spurning um hvort tilboðsstríð hafi keyrt upp verðmiðann á félaginu umfram það sem rekstur og hefðbundið verðmætamat gefa tilefni til. Telur Davíð að þessi hætta hafi skapast í söluferlinu nú og hvernig samræmist kaupverðið venjulegum útreikningum á verðmæti fyrirtækja?

„Það hefur vafalaust haft áhrif. Þessi mikli áhugi hefur að minnsta kosti ekki lækkað verðmiðann á félaginu. Hvað útreikninga á verðmæti varðar þá endurspegla núverandi verðmargfaldarar félagsins ekki endilega þau verðmæti sem felst í félaginu. Þar skipta m.a. máli vaxtarmöguleikar félagsins og þær fjárfestingar sem þegar hefur verið ráðist í en eiga eftir að koma fram í rekstri félagsins.

Við erum sátt við verðið og ánægjan endurspeglast í góðri þátttöku sjóðanna í viðskiptunum, en allir nema einn af þeim fjórtán lífeyrissjóðum sem standa að Jarðvarma kaus að taka þátt í þessari viðbótarfjárfestingu í HS Orku,“ segir Davíð.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .