Hagnaður fasteignafélagsins Eikar hf. nam 4,9 milljörðum króna árið 2021, sem er sjöfaldur hagnaður ársins 2020. Rekstrartekjur námu rúmum 8,6 milljörðum króna en þar af námu leigutekjur 7,7 milljörðum, sem er hækkun um 2% milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir  (EBITDA) nam 5,6 milljörðum króna og  hækkaði um 12% frá árinu áður. Bókfært virði fjárfestingareigna í lok árs var um 105 milljarðar króna, samanborið við um 98 milljarða ári fyrr. Matsbreyting á árinu var jákvæð um 5 milljarða króna. Vaxtaberandi skuldir námu tæpum 65 milljörðum króna í lok árs, samanborið við 62 milljarða í árslok 2020. Eiginfjárhlutfall félagsins var 32,6% í lok árs.

Í lok árs 2021 átti félagið 111 fasteignir með rúmlega 312 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum, en virði fasteigna félagsins er um 107,8 milljarða króna. Heildarfjöldi leigutaka félagsins eru yfir 400. Stærstu leigutakar félagsins eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Ríkiseignir, Landsbankinn, Sýn, Rúmfatalagerinn, Össur, Míla, Deloitte og Síminn.

Helstu fasteignir félagsins á höfuðborgarsvæðinu eru Borgartún 21 og 21a, Borgartún 26, Suðurlandsbraut 8 og 10, Mýrargata 2-16, Pósthússtræti 2 (Hótel 1919), Smáratorg 3 (Turninn), Smáratorg 1, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær), Grjótháls 1-3 og Austurstræti 5,6,7 og 17. Helsta fasteign félagsins utan höfuðborgarsvæðisins er Glerártorg. Stærsti eignaflokkur félagsins er skrifstofuhúsnæði sem er 45% af virði alls fasteignasafnsins. Annar stærsti eignaflokkurinn er verslunarhúsnæði, eða 24% safnsins.

Leggja til 1,7 milljarða arðgreiðslu

Stjórn Eikar leggur til að greiddur verði arður til hluthafa félagsins sem nemur 1,7 milljörðum króna, en arðgreiðslan mun jafngilda 0,5 krónum á hvern hlut. Stjórnin breytti arðgreiðslustefnunni á árinu og er stefna stjórnar nú að greiða allt að 50% af handbæru fé frá rekstri að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt var til endurkaupa á eigin bréfum fram að boðun aðalfundar.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir rekstur félagsins hafa gengið vel á árinu og umfram upphaflegar væntingar ársins. Dvínandi áhrif faraldursins á samfélagið hafi leitt til hækkunar á afkomuspá félagsins í tvígang yfir árið.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar:

„Árið 2021 var allt í senn viðburðaríkt, krefjandi og áhugavert. Markaðurinn tók vel við sér eftir lægð síðasta árs í útleigu og hækkaði virðisútleiguhlutfall félagsins úr 92% í ársbyrjun og nam 94,2% í lok árs 2021, þrátt fyrir að félagið hafi misst úr safninu stóra leigutaka. Félagið leggur sitt af mörkum til þess að stuðla að góðu og sjálfbæru samfélagi fyrir alla og gera leigutökum sínum og viðskiptavinum auðveldara að stíga vistvæn skref. Rafhleðslustöðvar eru nú við margar af byggingum félagsins, aðgengi hefur verið bætt með römpum og sorpgeymslur betrumbættar til þess að stuðla að aukinni flokkun. Þessi vegferð mun halda áfram enda er samfélagsleg ábyrgð okkar allra.“