Allsherjarinnrás rússneskra stjórnvalda inn í nágrannaríki sitt Úkraínu hefur kallað fram fordæmalausar viðskiptaþvinganir af hálfu Vesturlanda og bandamanna þeirra. Rússneska rúblan og MOEX hlutabréfavísitalan hafa fallið um yfir 30 prósent en í kjölfarið var kauphöllinni í Moskvu lokað tímabundið.

Þó að sum ríkin hafi verið tvístígandi til að byrja með hefur mikill þungi færst í viðskiptaþvinganirnar í kjölfar innrásarinnar. Til að mynda hefur Sviss vikið frá langvarandi hlutleysisstefnu sinni og samþykkt að taka þátt í öllum þvingunum Evrópusambandsins. Þó að mikil óvissa einkenni stöðuna er ljóst að þessar aðgerðir munu reynast rússneskum efnahag mjög þungbærar.

Meðal umsvifamestu viðskiptaþvingananna til þessa er útilokun Seðlabanka Rússlands frá fjármálamörkuðum vestrænna ríkja. Hún kemur í veg fyrir að Rússland geti gengið á stóran hluta 630 milljarða dala gjaldeyrisvaraforða síns til að styðja við gengi rúblunnar. Þrátt fyrir markvissa söfnun gullvaraforða og sölu eigna í Bandaríkjadölum er stór hluti gjaldeyrisvaraforðans enn geymdur erlendis - mest í Kína, eða um 14 prósent, en stór hluti í öðrum löndum sem tekið hafa þátt í aðgerðunum. „Trygging" Rússlands til að halda aftur af falli rúblunnar er því að miklu leyti úr myndinni og hefur seðlabankinn þegar tvöfaldað stýrivexti í 20 prósent og sett á gjaldeyrishöft.

Einnig hefur mörgum af stærstu viðskiptabönkum Rússlands verið útskúfað úr helstu fjármálamörkuðum heims og komið hefur verið í veg fyrir aðgengi flestra þeirra að SWIFTgreiðslukerfinu. Sberbank og Gazprombank fá þó undanþágu frá SWIFT-banninu svo að Evrópulöndin geti áfram greitt Rússum fyrir olíu og jarðgas, sem enn eru undanskilin viðskiptaþvingunum.

Þjarmað að ólígörkum

Viðskiptaþvingunum Evrópuríkjanna hefur í síauknum mæli verið beint að rússneskum auðjöfrum, svokölluðum ólígörkum, sem efnuðust gífurlega í kjölfar falls Sovétríkjanna og eru nátengdir Rússlandsforseta. Margir þeirra hafa verið settir í farbann og eignir þeirra frystar, en meðal þeirra þekktustu eru Igor Sechin, forseti olíufélagsins Rosneft, Alexey Mordashov, meirihlutaeigandi stálframleiðandans Severstal PAO, Alisher Usmanov, sem oft er tallinn ríkasti maður Rússlands, og Mikhail Fridman, stofnandi Alfa Bank.

Bandaríkin hyggjast leggja sitt lóð á vogarskálarnar með sérstökum starfshópi sem mun vinna með Evrópuríkjum að því að finna, frysta og jafnvel gera upptækar eignir ólígarka. Gætu þeir átt von á því að snekkjur þeirra og heimili beggja vegna Atlantshafsins verði gerð upptæk.

Í ljósi áhrifastöðu ólígarkanna innan Rússlands er vonast til að hægt sé að þrengja nógu mikið að þeim til að þeir reyni að hafa áhrif á ákvarðanatöku Vladimír Pútín. Slíkt hefur þó ekki borið árangur til þessa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .