Ég er nú að komast á þann aldur að hafa rétt á því að stimpla mig út, en börnin hafa verið að taka yfir, sonur minn er með svínadeildina, Stjörnugrís, og dóttir mín sér um hænsnin,“ segir Geir Gunnar sem telja má einn af fáum bændum sem eftir eru í Reykjavík.

„Við erum með fugla á fjórum stöðum, allt í póstnúmeri 162, sem er dreifbýli Kjalarness, en ætli það séu ekki sex kílómetrar á milli þar sem lengst er. Við höfum verið í næstum 50 ár hér að Vallá, þar sem við erum nú með stærsta hluta okkar reksturs. Síðan erum við með ungauppeldi í Sætúni og í Saltvík, og varphús í Brautarholti. Hérna höfum við átt velgengni að fagna, ekki hafa orðið stóráföll í rekstrinum og sú staðreynd gerir það að verkum að grunnur rekstrarins er sæmilega sterkur.“

Stjörnuegg hafa líkt og mörg önnur íslensk fyrirtæki fundið fyrir ferðamannastraumi síðustu ára.

„Já, það hefur verið stöðugur stígandi hjá okkur sem byrjaði bara um leið og ferðamannafjöldinn fór að aukast. Á þessum tíma hefur fyrst og fremst eftirspurnin aukist hjá veitingastöðum og hótelum,“ segir Geir Gunnar.

„Síðan er Costco eingöngu í viðskiptum við okkur, sem er auðvitað stór viðskiptavinur, það fer ekki milli mála. Við pökkum fyrir þá í 24 eggja bakka sem eru gegnsæir, en fyrir hótel og veitingastaði pökkum við saman 90 eggjum. Við þurftum ekki að kaupa nýjar vélar til að þjónusta Costco, það er minnsta mál að stilla pökkunarvélina okkar eftir hentugleika.“

Geir Gunnar viðurkennir að það hafi eflaust hjálpað fyrirtækinu að einn keppinautanna hvarf nýlega af markaði. „Við framleið-

um að stærstum hluta hvít egg, en við buðum svo sem einnig upp á brúnegg fyrir. En eftir þennan skarkala sem varð við það allt saman þá jókst eftirspurnin eftir þeim hjá okkur, svo við fórum að selja inn á fleiri markaði. Því er trúað af ýmsum að brún egg séu hollari en þau hvítu en svo er alls ekki, innihaldið er nákvæmlega það sama, en brúnu fuglarnir éta meira og skurnin á eggjum þeirra endist ekki jafnlengi,“ segir Geir Gunnar.

„Við höfum nú rúmlega 60% hænsnanna í lausagöngu og erum við komin vel á veg með að breyta búskapnum alfarið yfir í að sleppa fuglunum á gólf. Við eigum þó eftir að fjárfesta töluvert í því, en við höfum frest til ársins 2021 til að ljúka við þær breytingar. Erlendis virðist sem þörf sé á meiri notkun fúkkalyfja þar sem fuglar eru í lausagöngu, enda þá í meiri snertingu við það sem frá þeim kemur á gólfin, en það skal tekið fram að hér í okkar rekstri eru engin lyf notuð. Við fylgjumst vel með heilsufari í hjörðunum og sýnatökur eru tíðar, en frá MAST fáum við ágætis fólk í reglulegar heimsóknir. Það veitir okkur nauðsynlegt aðhald og sinnir eftirliti sem er lögbundið þó okkur finnist það stundum í strangara lagi, er það er eflaust nauðsynlegt. Þess utan þá notum við eingöngu óerfðabreytt fóður sem er nokkuð dýrara en hefðbundið fóður.“

Hjá Stjörnueggjum er nú í skoðun að framleiða lífræn egg að sögn Geirs Gunnars. „Til þess þarf þó að miða við íslenskar aðstæður, því veðurfarið hér á landi er ekki vænlegt fyrir mikla útiveru varphænsna nema með góðri aðstöðu. Svo verða fuglar sem hleypt er út meira fyrir barðinu á sjúkdómum, sem og mögulega mink og ref, svo maður veit ekki hvernig dýraverndunarsjónarmiðin tækla það.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .