Landspítalinn er í einstakri stöðu til þess að nýta gögn verandi eina stóra sjúkrahúsið á landinu sem gegnir fjölþættu hlutverki. Spítalinn býr þar af leiðandi yfir yfirgripsmeiri sjúkrasögu einstaklinga en gengur og gerist víðast hvar í heiminum.

Hin mikla gagnayfirsýn sem Landspítalinn býr yfir byggir á vegferð sem hófst fyrir um 14 árum, þegar uppbygging á Heilsugátt og samþættingarlagi gagna hófst. Samþættingarlagið virkar sem nokkurs konar skeytamiðja þar sem hin ýmsu kerfi geta sótt og sent gögn hnökralaust. Þannig eru allar rannsóknarniðurstöður og sjúklingaupplýsingar úr um 70 klínískum tölvukerfum og 9.000 lækningatækjum nú á einum stað.

Fyrir tilstilli þessarar vinnu var hægt að þróa Heilsugáttina, vefgátt sem er ætluð öllum klínískum starfsmönnum. s.s. hjúkrunarfræðingum, læknum og sjúkraliðum. Gáttin veitir starfsfólki aðgang að upplýsingum í rauntíma sem áður þurfti að afla, miðla og halda utan um handvirkt. Mikill tími fór í slíkt umstang hér áður fyrr sem í dag heyrir sögunni til og getur klínískt starfsfólk þess í stað varið tímanum alfarið í meðferð sjúklinganna.

Gervigreindartólið í Heilsugáttinni, Regluvélin, hefur komið að góðum notum í faraldrinum meðal annars til þess að flokka smitaða eftir fyrir fram skilgreindum reglum og tryggja þannig að þeir lendi sjálfkrafa hjá réttum eftirfylgniaðila, sem dæmi, og í viðeigandi forgangi.

Sýndarmeðferð handan við hornið

Upplýsingatæknivegferð Landspítalans undanfarin ár hefur skapað fjölmörg tækifæri tengd gagnasafni spítalans. Nýlega fór Kubburinn í loftið, lausn sem best er lýst sem leitarvél um ópersónugreinanleg sjúkraskrárgögn spítalans. Með honum er meðal annars hægt að leita uppi tengsl milli sjúkdóma, aðgerða og lyfjasögu, eftir kyni og aldri sjúklinga.

Þannig er hægt að skoða fylgni atvika fyrir, eftir og á meðan meðferð stendur og hvort fylgni sé meiri eða minni í samanburði við almennt þýði af sömu stærð með sömu kynja- og aldursdreifingu. Kubburinn skilar niðurstöðum á nokkrum sekúndum sem handvirkt hefði tekið margar vikur að taka saman og getur þannig umbylt rannsóknarvinnu í þessum efnum til framtíðar.

Þróun sýndarmeðferða sem byggja á Kubbnum er á lokametrunum. Sýndarmeðferð mun gera læknum kleift að skoða tölfræðileg líkindi á árangri ólíkra meðferða sem standa sjúklingi til boða, byggt á sjúkrasögu hans.

Sýndarmeðferðin ber þannig eiginleika sjúklingsins og sögu saman við gagnasafnið og greinir hvaða meðferð hefur reynst árangursríkust hjá sjúklingum sem deila sömu eiginleikum. Með því aukast líkur á að besta mögulega meðferð fyrir hvern sjúkling sé valin hverju sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .