Eiríkur Örn Þorsteinsson, Freyr Eyjólfsson og Sigrún Haraldsdóttir hafa verið ráðin til Sorpu. Öll hafa þau þegar hafið störf. Greint er frá ráðningu þeirra í fréttatilkynningu.

Eiríkur er ráðinn í starf sérfræðings í fræðslu og miðlun, Freyr í starf verkefnastjóra hringrásarhagkerfisins og Sigrún í starf verkefnastjóra á skrifstofu framkvæmdastjóra.

„Ráðningarnar eru hluti af aukinni áherslu Sorpu á fræðslu og miðlun upplýsinga til almennings, þeirrar lykilstöðu sem Sorpa er í við innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi og þeirra verkefna sem samlagið tekur þátt í á sviði úrgangsmála á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í fréttatilkynningu.

Eiríkur er grunnskólakennari frá Háskóla Íslands að mennt með áherslu á náttúrufræði. Hluta af náminu tók hann í skiptinámi við Háskólann í Stokkhólmi. Eiríkur hefur starfað sem kennari í Vesturbæjarskóla og Laugalækjarskóla, þjónustufulltrúi hjá Orkuveitu Reykjavíkur og starfsnemi hjá Íslandsstofu. Eiríkur er auk þess að ljúka meistaranámi í Markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands.

Freyr hefur starfað sem samskiptastjóri hjá Terra og unnið að ýmsum verkefnum er varða flokkun og endurvinnslu. Hann á að baki áralanga reynslu í fjölmiðlum, lengst af sem frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV. Freyr er með meistarapróf í stafrænni stjórnun frá Hyper Island í Stokkhólmi, B.A. gráðu í mannfræði og almenn kennsluréttindi frá Háskóla Íslands.

Sigrún er með Bs. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands. Sigrún starfaði sem Data engineering manager hjá CCP, teymisstjóri Novomatic og stýrði innleiðingu á tölvukerfum hjá Actavis og Festi.