Eiríkur Rafn Rafnsson hefur tekið til starfa hjá Hopp ehf. sem forstöðumaður stjórnsýslumála. Hann mun leiða samskipti Hopp við sveitarfélög þar sem Hopp er með starfsemi eða hyggur á starfsemi á næstunni. Einnig mun Eiríkur Rafn leiða vinnu Hopp við að stuðla að samræmdri og öruggri löggjöf um smáfarartæki.

Eiríkur Rafn er stjórnmálafræðingur að mennt og starfaði áður sem aðstoðarmaður þingflokks Pírata. Þar áður starfaði hann sem lögreglumaður, lengst af sem lögreglufulltrúi hjá Embætti sérstaks saksóknara.

Hopp var stofnað árið 2019 og hefur rekstur félagsins á Íslandi gengið framar vonum. Fyrstu sérleyfin með Hopp-hjól opnuðu á Spáni árið 2020 og nýlega tryggði Hopp sér fjármögnun fyrir frekari opnunum á erlendum mörkuðum. Stefnt er að því að hefja rekstur Hopp á um 100 stöðum á næstu tveimur árum.

Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp:

„Það er frábært að fá reynslubolta eins og Eirík með okkur í lið. Við hjá Hopp gerum okkar ítrasta til að starfa í sátt og samlyndi við þau sveitarfélög þar sem Hopp er að finna, eins og samstarf okkar við Reykjavíkurborg ber merki. Eiríkur mun bera hitann og þungann af því samstarfi og aðstoða sérleyfishafa okkar við að kynna Hopp sem jákvæðan, einfaldan og umhverfisvænan ferðamáta í borgum og bæjum."