Spotify tapaði 6 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi, eða um 830 milljónum króna. Til samanburðar hagnaðist streymisveitan um 14 milljónir dala árið áður. Þetta kemur fram í nýútgefnu ársfjórðungsuppgjöri frá félaginu.

Tekjur félagsins á fjórðungnum námu 2,66 milljörðum evra. Jukust tekjurnar um fjórðung á milli ára. Þar af námu auglýsingatekjur félagsins 282 milljónum evra á fjórðungnum, sem er 11% af heildartekjunum á tímabilinu og jafnframt 31% aukning á milli ára. Auk þess námu tekjur Spotify í gegnum áskriftir tæpum 2,4 milljörðum evra.

Sjá einnig: „Kryddarinn“ breytti tónlistarbransanum

Daniel Ek, forstjóri Spotify, hafnar samanburði félagsins við Netflix , en gengi bréfa Netflix hefur lækkað um nær 70% frá áramótum. Ek segir félögin mjög ólík í rekstri og bendir meðal annars á að að Spotify bjóði upp á ókeypis þjónustu, eitthvað sem Netflix býður ekki upp á.

Notendum streymisveitunnar fjölgaði á milli ára. Spotify var með 182 milljónir notenda í áskrift í lok ársfjórðungsins, sem er 15% aukning á milli ára. Virkir notendur voru auk þess 422 milljónir, sem er fimmtungsaukning á milli ára.

Gengi bréfa Spotify lækkaði um 11% við birtingu uppgjörsins í gær. Hefur gengið lækkað um 60% frá áramótum og stendur í um 97 dölum á hlut. Hæst var gengið í 364 dölum á hlut í febrúarmánuði 2021.