Ívar Ingimarsson sem rekur tvö gistiheimili á Egilsstöðum segir landslagið í afþreyingu allt í kringum landið gjörbreytt á síðasta áratug og vonast eftir því að ferðaávísun innanlands virkji bæði ferðaglaða Íslendinga til að ferðast innanlands í sumar sem og ferðaþjónustufyrirtæki til að koma til móts við þá með frekari tilboðum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur fjöldi afbókana orðið hjá erlendum ferðamönnum í íslenskri ferðaþjónustu síðustu daga marsmánuðar eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um flugbann til Bandaríkjanna aðfaranótt 12. mars síðastliðinn.

Ívar er þrátt fyrir svartsýni á efnahagsáhrifin þakklátur þeim sem staðið hafa í framlínu baráttunnar við útbreiðslu veirunnar, enda mannslíf í húfi. „Maður verður bara að taka hattinn ofan fyrir þeim, og það virðist sem þær aðgerðir sem hafi verið gripið til séu að virka og aðrar þjóðir séu farnar að horfa til þess hvernig við höfum brugðist við. Ísland er þekkt fyrir hreinleika, óspillta náttúru og víðerni sem ég held að geti hjálpað okkur þegar þessu fer að lægja og fólk sér hvernig við höfum tekið á þessu.

Það hljóta að vera tækifæri í því að sýna að við búum í 103 þúsund ferkílómetra landi, með einungis þrjá íbúa á hvern ferkílómetra og hér er hellingur af stöðum allt í kringum landið sem hægt er að skoða án þess að næsti ferðamaður sé ofan í vasanum hjá þér. Svo það er gott að stjórnvöld og greinin séu að undirbúa sig í að vera tilbúin til að sýna mögulegum ferðamönnum að hér er gott heilbrigðiskerfi, vel menntað starfsfólk og tekið vel á hlutunum svo það fyllist meira öryggi fyrir því að koma hingað," segir Ívar.

Ekkert „make or break" í stöðunni

Ívar vonast eftir því að ef fer sem horfir að Íslendingar komist hraðar yfir veirufaraldurinn en heimsbyggðin almennt og hægt verði að losa um bönn og tilmæli innanlands áður en flugumferð opnist í stórum stíl, þá fari Íslendingar að ferðast um landið í meira mæli í sumar.

„Íslendingum finnst gaman að ferðast og sérstaklega fyrir þá sem búa á Suðurlandi þá hafa þeir búið að því að stutt er að fara á Keflavíkurflugvöll og verið tiltölulega ódýrt að ferðast hvert sem er. Ef minna framboð verður á þeim valkosti eða dýrara þá er mikilvægt að það sem er í boði allt í kringum landið verði kynnt fyrir landanum," segir Ívar og segist ánægður með hugmyndir um ferðaávísun innanlands fyrir Íslendinga sem talað er um í aðgerðaáætlunum stjórnvalda.

„Þetta er ekkert „make or break" í stöðunni, en mér finnst þetta virðingarvert framtak og vekur kannski athygli Íslendinga að ferðast um landið sitt. Ég er líka viss um að ferðaþjónustufyrirtækin muni reyna að láta þennan fimm þúsund kall ganga lengra með alls konar afsláttum og tilboðum. Það hefur átt sér gríðarleg fjárfesting í afþreyingu, veitingastöðum og öðru allt í kringum landið sem er mikilvægt að viðhaldist, hvort sem þú tekur Vestfirði, Norðurland eða Austurland, sem var ekki til staðar fyrir tíu árum síðan. Nú er það allt öðruvísi að ferðast um landið heldur en þegar einungis var hægt að labba inn á eina bensínsjoppu á hverjum stað og fá sér pulsu með öllu."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .