Eldey, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í ferðaþjónustunni, tapaði 598 milljónum króna árið 2020 og hefur nú tapað 1.654 milljónum á síðustu tveimur árum. Þar af nemur virðisrýrnun eignasafnsins 1.545 milljónum. Eignir Eldeyjar í árslok 2020 námu 1,3 milljörðum króna, eigið fé var 1,1 milljarður og skuldir 182 milljónir.

Félagið, sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða og í stýringu hjá Íslandssjóðum, færði eignarhlut sinn í hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu úr 130 milljónum í 13 milljónir á síðasta ári.

Sjá einnig: 75% tekjusamdráttur hjá Norðursiglingu

Í skýrslu stjórnar segir að árið 2020 hafi byrjað ágætlega, rekstur félaga í eignasafninu hafi verið í takti við væntingar eftir umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir árið áður og bókanir til lengri tíma litu vel út. Hins vegar urðu félögin tekjulaus „á nánast einni nóttu“ í byrjun faraldursins. „Alvarlegasta afleiðing þessa er gjaldþrot Saga Travel ehf. sem var ekki metið sem lífvænlegt fyrirtæki“ en Eldey átti um 67% hlut í félaginu.

Fram kemur að viðræður við hluthafa um stækkun Eldeyjar höfðu staðið yfir í nokkurn tíma áður en faraldurinn hófst. Í kjölfarið breyttist forgangsröðunin þannig að í stað þess að auka við hlutafé til að hefja uppbyggingu og styrkja félögin til frekari sóknar var nú horft til þess hversu mikla fjármuni þyrfti til að koma félögunum í skjól miðað við 12-18 mánaða tekjuleysi. Hluthafar Eldeyjar samþykktu að auka hlutafé að fjárhæð 500 milljónir króna.

Samkeppniseftirlitið heimilaði nýlega samruna Eldeyjar og Kynnisferðir. Við samrunann renna dótturfélögin Arcanum, Logakór, Sportköfunarskóli Íslands og Íslensk heilsulind inn í samstæðu Kynnisferða. Í samrunanum er miðað við að hluthafar Eldeyjar eignist 35% í sameinuðu félagi og hluthafar Kynnisferða 65%.