Úrvalsvísitalan lækkaði um 3,16% í dag og lækkuðu öll félög á aðallista Kauphallarinnar. Origo leiddi lestina og lækkaði um 4,83%. Þrjú önnur félög lækkuðu meira en fjögur prósent í dag; Icelandair, Arion Banki og Skel fjárfestingafélag.

Mest velta var með bréf í Íslandsbanka, eða um 2,7 milljarða króna sem var ríflega tvöfalt meiri velta en með bréf í Marel.

Úrvalsvísitalan stendur nú í 2.807 stigum og hefur ekki verið lægri í rúmlega ár. Lækkunina má helst rekja til gengi bréfa í Marel, en gengi þeirra hefur lækkað um fjórðung það sem af er ári. Gengi bréfa í Marel hefur ekki verið lægra síðan í júní 2020.

Hlutabréfavísitölur hafa lækkað í flestum löndum í kringum okkur, t.d. lækkaði danska hlutabréfavísitalan OMXC25 um 5% og það sem af er degi hefur bandaríska hlutabréfavísitalan S&P500 lækkað um 2%.