Lánveitingar bankanna halda áfram að aukast líkt og á fyrri helmingi þessa árs þegar þær jukust um 4,7%. Alls námu ný útlán bankanna þriggja til viðskiptavina að frádregnum uppgreiðslum 101 milljarði króna, sem samsvarar 3,9% aukningu á ársfjórðungnum. Þá nemur aukning nýrra útlána til viðskiptavina 12,3% á síðustu tólf mánuðum og hefur ekki verið meiri yfir fyrrgreint tímabil frá hruni. Líkt og á fyrri hluta ársins var meiri aukning í nýjum lánveitingum til fyrirtækja en ný lán til þeirra námu samtals um 58 milljörðum á meðan ný lán til einstaklinga námu 43 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi.

Af bönkunum þremur hefur mestur vöxtur verið í nýjum útlánum hjá Landsbankanum. Á síðustu þremur mánuðum jukust þær um 48,5 milljarða eða 4,9% og nema útlán bankans til viðskiptavina sinna nú 1.038 milljörðum. Þá nam tólf mánaða aukning bankans 132 milljörðum eða 14,6%. Næstmest var aukningin hjá Íslandsbanka eða 35,6 milljarðar á síðustu þremur mánuðum sem samsvarar 4,5% aukningu. Námu útlán bankans til viðskiptavina 835,6 milljörðum í lok fjórðungsins. Á síðustu tólf mánuðum jukust útlán bankans um 94,2 milljarða eða um 12,7%. Aukningin var hins vegar minnst hjá Arion banka en ný útlán bankans námu 16,3 milljörðum á fjórðungnum sem samsvarar 2% aukningu og námu útlán í lok september 820 milljörðum. Á síðustu tólf mánuðum hafa útgjöld bankans aukist um 69 milljarða króna eða um 9,2%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .