Heildarviðskipti á aðalmarkaði kauphallarinnar námu 976 milljónum króna í dag og úrvalsvísitalan, OMXI8, lækkaði um 0,36%. Af þeim 18 félögum sem skráð eru á markaðinn lækkuðu 10, á meðan 4 hækkuðu, og 4 stóðu í stað.

Óhætt er að segja að heldur lítil viðskipti hafi verið á bak við sumar hreyfingar á markaðnum í dag.

Mest lækkuðu bréf Festis, um 1,79% í 49 milljóna króna viðskiptum, og næst kom Origo með 1,23% lækkun í aðeins 9 milljóna viðskiptum. Loks lækkuðu bréf Sjóvár um 1,12%, en aðeins ein viðskipti áttu sér stað með bréf tryggingafélagsins, upp á litlar 40.600 krónur. Bréf í öðrum félögum lækkuðu um minna en 1%.

Heimavellir hækkuðu mest, um 1,8%, en í sáralitlum viðskiptum, aðeins 4.500 krónum. Næst komu Arion banki með 0,87% hækkun í 2,3 milljóna viðskiptum, og fast á hæla hans Icelandair með 0,85% hækkun í 65 milljóna viðskiptum.

Mest velta var með bréf Eimskipa, sem lækkuðu um 0,46% í 178 milljóna viðskiptum, en þar næst koma Marel með 0,27% lækkun í 128 milljóna viðskiptum og Eik með óbreytt gangvirði í 124 milljóna viðskiptum.