Átján af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar lækkuðu í 5,3 milljarða króna viðskiptum í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,4% í dag og stendur nú í 3.293 stigum en vísitalan hefur nú fallið um 4,6% frá því á þriðjudaginn í síðustu viku, þegar hún náði sínum hæstu hæðum í 3.450 stigum.

Origo leiddi lækkanir en gengi upplýsingatæknifyrirtækisins féll um 4% í dag, þó í aðeins 71 milljónar viðskiptum. Hlutabréfaverð Origo  hefur engu að síður hækkað um 48% í ár og stendur nú í 59 krónum á hlut.

Útgerðarfélögin Brim og Skeljungur lækkuðu bæði um meira en 2% í dag. Hagstofan birti í dag tölur um landaðan afla í ágúst en hann var 17% minni en á sama tíma í fyrra og mældist alls 109 þúsund tonn.

Marel lækkaði um 1,8% í 587 milljónum króna en gengi félagsins nemur nú 921 krónu. Hlutabréfaverð Marels hefur nú fallið um 5% í septembermánuði.

Gengi Kviku hefur fallið um 8% frá því á fimmtudaginn síðasta eftir 1,7% lækkun í dag. Hlutabréfaverð bankans hefur engu að síður hækkað um 34% í ár. Mesta veltan í Kauphöllinni var með hlutabréf Arion, eða um 1,4 milljarðar, sem lækkuðu um 0,8% í dag.

VÍS var eina félagið sem var grænt í viðskiptum dagsins. Gengi tryggingafélagsins hækkaði um 0,6% í 174 milljóna veltu. Sjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka, eignuðust í dag yfir 5% hlut í VÍS. Félagið nýtti framvirka samninga fyrir samtals 14 milljónir hluta eða um 0,74% hlut í tryggingafélaginu í dag, samkvæmt flöggunartilkynningu .