Árið 2018 urðu Íslendingar fyrstir þjóða til að lögfesta jafnlaunastaðal, sem ætlað er að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað. Innleiðing staðalsins hefur styrkt annað gæðastarf og öfugt innan skipulagsheilda. Skipulagsheildir sem hafa innleitt gæðastaðla og/eða unnu skilvirkt að skjalastjórnun virðast hafa forskot á aðrar. Helstu hindranir við innleiðingu jafnlaunastaðals eru hins vegar tímaskortur og aukið vinnuálag. Þetta er meðal helstu niðurstaðna greinar Guðbjargar Ingunnar Óskarsdóttur, upplýsingafræðings hjá forsætisráðuneytinu, og Rögnu Kemp Haraldsdóttur, lektors í upplýsingafræði, sem birt var í nýjasta Tímariti um viðskipti og efnahagsmál.

Þær segja markmið rannsóknarinnar hafa verið að kanna hvernig skipulagsheildir sem hlotið höfðu jafnlaunavottun hefðu staðið að innleiðingu jafnlaunakerfis í samræmi við kröfur jafnlaunastaðals. Vildu þær þannig varpa ljósi á hvaða þættir reyndust styðja við innleiðingarferlið og hverjar væru helstu hindranir.

„Styrkur þeirra skipulagsheilda sem tóku þátt í rannsókninni fólst m.a. í sérþekkingu starfsfólks á sviði mannauðsmála, gæðamála og skjalamála sem og formföstu umhverfi sem var vel undirbúið fyrir innleiðingu gæðastaðals. Með innleiðingu jafnlaunakerfis komust á agaðri vinnubrögð og aukið gagnsæi í launasetningu. Þá jókst skjalfesting ýmissa mannauðsgagna í samræmi við kröfur jafnlaunastaðals," segir Guðbjörg.

„Starfaflokkun reyndist þó tímafrek og var ekki studd af íslenskri starfaflokkun. Þá komu fram gagnrýnisraddir sem beindust að lögleiðingu jafnlaunastaðals almennt sem og að eftirlitsaðilum sem skorti fjármagn og mannafla til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Það er áhyggjuefni því að fjölmargir vinnustaðir eiga eftir að innleiða staðalinn fyrir lok árs 2022."

Kostirnir mun fleiri en gallarnir

Ragna segir skipulagsheildir sem þegar hafi innleitt aðra gæðastaðla standa vel að vígi þegar kemur að innleiðingu jafnlaunastaðals í samanburði við skipulagsheildir sem litla eða enga reynslu hafa af gæðastöðlum. Guðbjörg segir viðmælendur hafa verið á einu máli að þrátt fyrir að jafnlaunastaðallinn feli í sér auknar kröfur um skjölun hafi innleiðingin einnig leitt af sér mikið hagræði, t.d. með betra skipulagi mannauðsgagna. „Kostirnir sem fylgdu þessu innleiðingarferli voru að þeirra mati mun fleiri en gallarnir."

Eins og Guðbjörg nefndi komu fram áhyggjuraddir yfir því að eftirlitsaðila, í þessu tilviki Jafnréttisstofu, skorti fjármagn og mannafla til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Jafnréttisstofa getur krafið skipulagsheildir um að framfylgja lögunum og gera viðunandi úrbætur innan hæfilegs frests, að viðlögðum dagsektum. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni sem fram koma í grein Guðbjargar og Rögnu hefur sektarákvæði þó ekki verið beitt til þessa. Þar sem beiting dagsekta telst íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun hefur Jafnréttisstofa ákveðið að vinna út frá meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sem segir að ekki skuli ganga lengra en nauðsyn krefur.

Þær benda sömuleiðis á að innleiðing jafnlaunastaðals sé rétt að byrja. Um 1.180 skipulagsheildum þar sem starfa um 147 þúsund einstaklingar, sem eru um 80% af íslenskum vinnumarkaði, er skylt að innleiða jafnlaunastaðal. Samkvæmt lista sem Jafnréttisstofa gefur út hefur þegar þetta er skrifað ríflega fjórðungur þeirra, alls 317 skipulagsheildir, hlotið vottun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .