Sífellt fleiri Evrópulönd eru farin að banna rússneskum flugfélögum að fljúga yfir lofthelgi sína. Eystrasaltslöndin, Rúmenía og Slóvenía tilkynntu í dag um ákvörðun að meina rússneskum flugfélögum að koma inn í lofthelgi landanna, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Fyrir hafði Bretland, Búlgaría, Tékkland og Pólland meinað rússneskum flugfélögum að lenda á flugvöllum sínum eða koma inn í lofthelgi sína.

Sjá einnig: Rússar setja bann á bresk flugfélög

Rússnesk stjórnvöld vöruðu við því fyrr í vikunni að þau myndu svara flugtakmörkunum annarra landa í sömu mynt. Rússnesk flugmálayfirvöld hafa þegar tilkynnt um bann á flugfélög frá Bretland, Búlgaríu, Póllandi og Tékklandi.

Þurfa langar krókaleiðir

Eftir að Eystrasaltslöndin tóku upp bannið fyrr í dag er ljóst að leyfilegum flugleiðum rússneskra flugfélaga til Vestur-Evrópu fer fækkandi. Gögn frá Flightradar24 sýndu að flugfélagið Aeroflot hafi tekið langa krókaleið yfir Norður-Evrópu og Eystrasaltslöndin í flugi í morgun frá Moskvu til Búdapest (áður en nýjustu bönnin tóku gildi). Flugtíminn lengdist um 70 mínútur fyrir vikið.

Takmarkanir Rússlands hafa einnig teljandi áhrif á bresk flugfélög sem fara yfir rússneska lofthelgi á leið sinni til Asíu. Virgin Atlantic hefur tímabundið hætt fraktflugum á milli London og Shanghai. British Airways hefur þurft að breyta ákveðnum flugleiðum sem leiðir til lengri flugtíma og aukins eldsneytiskostnaðar.

Myndin hér að ofan sýnir landakort þar sem lönd sem hafa meinað rússneskum flugfélögum að fljúga yfir lofthelgi sína eru rauðmerkt.