Landsmenn eyddu tæpum tveimur milljörðum króna í skipulögð ferðalög í mars en kortavelta í flokki ferðaskrifstofa og skipulagðra ferða rúmlega sexfaldaðist á milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

Heildar greiðslukortavelta í mars nam rúmum 91,3 milljörðum króna og jókst um 26,5% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Kortavelta Íslendinga hérlendis nam 77,4 milljörðum í mars og jókst um 10,2% á milli ára. Innlend kortavelta í verslun í mars dróst saman um 3,7% á milli ára og nam rúmum 40,1 milljarði.

Innlend kortavelta í þjónustu nam rúmum 37,2 milljörðum í mars og jókst hún um rúm 30,3% á milli ára. Allir undirflokkar kortaveltu í þjónustu innanlands í mars jukust um 20% eða meira frá fyrra ári.

Heildar velta innlendra greiðslukorta erlendis nam rúmum 15,5 milljörðum í febrúar sem er hækkun um rúma 6,6 milljarða frá fyrra ári að raunvirði.

Erlendir ferðamenn eyða sjöfalt meiru

Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam tæpum 14 milljörðum og jókst um 40% á milli mánaða og rúmlega sjöfaldaðist á milli ára.

Hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi var tæp 15,3% í mars en sama hlutfall var rúm 21,2% í mars 2019. Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru ábyrgir fyrir 33,9% af allri erlendri kortaveltu hérlendis, Bretar með 15,5% og Þjóðverjar með 6,7%.