Ný-Sjálensk stjórnvöld hafa í hyggju að banna ungviði landsins að eiga nokkurn tímann möguleika á að kaupa sér sígarettur á lífsleiðinni. Segja yfirvöld í landinu að baráttan gegn reykingum hafi tekið of langan tíma. Reuters greinir frá.

Ef hugmyndir þessa efnis ná fram að ganga munu íbúar Nýja-Sjálands sem verða á 14. aldursári eða yngri árið 2027 verða meinað um að festa kaup á sígarettum út ævina í heimalandinu. Auk þess munu vera settar hömlur á hversu margar verslanir megi selja sígarettur í smásölu. Þá yrði tóbaksframleiðendum gert að minnka nikótínskammta í hverri sígarettu.

„Við viljum ganga úr skugga um að ungt fólk taki aldrei upp á því að byrja að reykja. Því viljum við að það verði ólöglegt að selja eða afhenda yngstu árgöngum landsmanna reyktóbak," er haft eftir Ayesha Verrall, aðstoðarheilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands.

Stefna stjórnvöld á að ofangreitt verði lögfest fyrir lok næsta árs.