Meta, móðurfélag Facebook, mun opna sína fyrstu verslun í borginni Burlingame, sem er staðsett á milli Kísildalsins og San Fransisco þann 9. maí næstkomandi. Um er að ræða lið í markaðssetningu tæknifyrirtækisins á samfélagsheiminum (e. metaverse).

„Besta leiðin til að skilja sýndarveruleika er að upplifa hann,“ segir Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, í tilkynningu .

Í versluninni gefst almenningi tækifæri á að prófa vinsæl forrit í gegnum Oculis Quest 2 sýndarveruleikagleraugu þar sem upplifun fólks verður varpað upp á skjá. Einnig verður hægt að prófa aðrar vörur á borð við Ray-Ban Stories snjallgleraugun og Portal sýndarveruleikabúnaðinn. Þannig fái fólk „tilfinningu fyrir því hvað er í vændum nú þegar við byggjum upp samfélagsheiminn,“ að sögn Zuckerberg.