Ken Griffin, stofnandi vogunarsjóðsins Citadel, segir Seðlabanka Bandaríkjanna geta slakað á aðgerðum sínum verði verðbólga komin niður í 4% undir lok þessa árs. Haldist hún hins vegar í kringum 8,5% þá muni Seðlabankinn „þurfa að stíga ansi hart á bremsurnar," sem muni valda samdrætti í hagkerfinu, sagði Griffin í samtali við Bloomberg .

Hann vakti einnig athygli á því að tvöfalt fleiri störf væru í boði en fólk í atvinnuleit. Það sé raunverulegt vandamál hversu illa gangi að fá fólk út á vinnumarkaðinn en þessi staða valdi auknum launaþrýstingi sem muni auka frekar á verðbólguna.

Í samtalinu lýsti Griffin einnig yfir andstöðu sinni við aðgerðir ríkisstjóra Flórída fylkis, Ron DeSantis, gegn Disney. Ríkisstjórinn takmarkaði nýlega sérstaka skattastöðu sem Disney hefur haft innan fylkisins síðastliðin 55 ár. Griffin sagði aðgerðir ríkisstjórans bera þess merki að hann væri að hefna sín vegna andstöðu fyrirtækisins við löggjöf sem nýlega var samþykkt í fylkinu og bannar umræðu um kynhneigð og kynvitund í kennslustofum með ungum nemendum, en Griffin var sjálfur fylgjandi frumvarpinu.