Í nýju efnahagsyfirliti VR kemur fram að falið atvinnuleysi á Íslandi sé um 7% þrátt fyrir að skráð atvinnuleysi sé aðeins um 2%. Hefðbundnar atvinnuleysistölur ná yfir þá sem eru án vinnu, vilja vinna, hafa leitið að vinnu síðastliðnar fjórar vikur og geta hafið störf innan tveggja vikna. Falið atvinnuleysi tekur einnig inn í reikninginn fólk sem er tilbúið að vinna en er ekki að leita, fólk sem er að leita en er ekki tilbúið að hefja störf innan tveggja vikna og fólk sem er í hlutastarfi en vill vinna meira.

Í efnahagsyfirliti VR segir að falið atvinnuleysi hafi verið um 4% rétt fyrir hrun en hækkað strax í kjölfar hrunsins og sé enn á þeim slóðum. Helsta ástæða þess að falið atvinnuleysi hafi ekki lækkað til jafns við skráð atvinnuleysi sé mikil aukning falins atvinnuleysis hjá konum á aldrinum 55-74 ára.  Þá hafa einnig verið mikil aukning í földu atvinnuleysi hjá körlum á sama aldri.

Efnahagsyfirlit VR má finna í heild sinni hér.