Viðsnúningurinn frá hápunkti faraldursins hefur verið skarpur á Keflavíkurflugvelli síðustu mánuði, og meiri en á heimsvísu. Sterkri viðspyrnu er spáð fyrir fluggeirann á þessu ári, og forsvarsmenn íslensku flugfélaganna sjá fram á afar gott ferðasumar .

Farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll nam 41% af fjölda 2019 í júlí síðastliðnum eftir að hafa verið undir fimmtungi frá upphafi faraldursins. Í ágúst var hann rétt um helmingur 2019 fjöldans, og hefur ekki farið undir það síðan, en síðustu þrjá mánuði síðasta árs slagaði hann hátt í 60%.

Samkvæmt gögnum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (e. IATA) nam framboð sætiskílómetra á heimsvísu 42% af því sem það hafði verið árið 2019 á síðasta ári, sem þó er talsvert hærra en árið 2020. Framboðið jókst auk þess jafnt og þétt yfir árið, og var komið í um 55% af því sem það var árið 2019 undir lok síðasta árs.

Sé aðeins horft til millilandaflugs var samdrátturinn frá 2019 öllu meiri, ríflega 75%, en viðsnúningurinn sömuleiðis sterkur á seinni hluta síðasta árs. Um mitt árið var millilandaflug enn aðeins um fimmtungur þess sem það hafði verið 2019, en í lok árs hafði það hlutfall ríflega tvöfaldast.

Viðsnúningurinn meiri innan heimsálfa en milli
Ráðgjafafyrirtækið Bain & Company spáir því að tekjur fluggeirans muni nema 432 milljörðum dala á árinu, eða um 65% af tekjum ársins 2019. Þær dreifast þó ekki jafnt yfir árið, heldur er gert ráð fyrir að þær vaxi jafnt og þétt eftir því sem á líður, og undir lok árs verði eftirspurn eftir flugferðum komin í um 84% þess sem hún var árið 2019.

Nokkru munar á því hversu vel fyrirtækið spáir því að flugmarkaðir einstakra heimsálfa nái sér. Mestri viðspyrnu er spáð í flugi innan Norður-Ameríku, hvar eftirspurn verði komin í 96% af 2019 í júlí, en því næst kemur flug innan Evrópu með 89% í sama mánuði og loks Asía með 74%.

Milli ofangreindra svæða er hins vegar gert ráð fyrir töluvert meiri slaka, frá 60% af eftirspurn ársins 2019 milli Evrópu og Norður-Ameríku niður undir 50% fyrir flug milli þeirra tveggja og Asíu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .