Pétur Örn Magnússon tók í byrjun mánaðar við starfi framkvæmdastjóra hjá Lotu. Lota varð til þegar verkfræðistofurnar VSI og VJI runnu saman árið 2015. Pétur er þó enginn nýgræð- ingur hjá fyrirtækinu, því hann hóf þar störf árið 2003. Hann tekur við góðu búi af Magnúsi Kristbergssyni, sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri um mánaðamótin.

„Við ætlum bara að halda stefnunni,“ segir Pétur. „Við höfum stækkað hratt og það er verð­ ugt viðfangsefni að halda kúrs þar. Þegar ég byrjaði vorum við tíu. Síðastliðin fimm ár höfum við verið á stækkunarbraut hjá fyrirtækinu.“

Pétur segir að það sé í sjálfu sér ekkert markmið hjá fyrirtækinu að stækka heldur halda áfram að keyra öflugt þekkingarfélag og ráðgjafafyrirtæki sem getur sinnt bæði stórum og smáum verkefnum. Verkefni Lotu eru „allt á milli himins og jarðar. Auðvitað þrífumst við á framkvæmdum og erum bæði að hanna og stýra framkvæmdaverkum – við höfum mikið verið að stýra stórum verkum fyrir okkar viðskiptavini þar sem við leigjum okkur út sem verkefnastjóra. Gagnaver hafa verið stór partur af okkar verkefnum síðastliðin tvö eða þrjú ár,“ segir Pétur.

Íslenski „jafnkuldinn“ eftirsóknarverður

Magnús Kristbergsson, sem ný­ lega lét af störfum sem framkvæmdastjóri Lotu, segir að engin af stóru fyrirtækjunum, t.d. Google eða Facebook hafi komið til Íslands. Umræða um gagnaver hafi því kannski ekki farið hátt undanfarin ár á Íslandi.

„Á Reykjanesinu hafa verið að rísa þónokkur gagnaver,“ segir Pétur. „Við höfum verið töluvert í því undanfarin ár og það kemur töluvert af fyrirspurnum til okkar þar sem menn spyrjast fyrir um hvernig sé að vera með gagnaver á Íslandi.“

Fyrirspurnirnar lúta flestar að umhverfisþáttum því að sögn Péturs er „jafnkalt“ íslenskt loftslag eftirsóknarvert fyrir gagnaver. Lota kemur einnig að hönnun nýja Landspítalans og Húsi íslenskra fræða, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir við húsið hefjist í haust.

Magnús segir ferðamannastrauminn hafa haft áhrif á hönnun hússins. „Menn sáu að hinum megin við götuna á Þjóðminjasafninu hefur orðið sprenging í gestafjölda. Það var ekki gert ráð fyrir þessum fjölda ferðamanna í Húsi íslenskra fræða en nú eru þetta okkar mestu þjóðargersemar sem verða í þessu húsi þannig að það varð að breyta skipulagi hússins til að geta tekið á móti fleira ferðafólki.“ Húsið var að hans sögn ekki stækkað en skipulagi þess breytt til að mæta þessari þörf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.