Farþegaforsendur Isavia gera ráð fyrir rúmri 1,1 milljón erlendra ferðamenn til landsins á árinu 2022 en það er nokkuð undir þjóðhagspám bæði Íslandsbanka, sem spáði 1,3 milljónum, og Landsbankans, sem spáði 1,5 milljónum ferðamanna.

Farþegaforsendurnar voru gefnar út áður en ákvörðun stjórnvalda um að halda takmörkunum á landamærum óbreyttum var kynnt, en í ljósi þeirra ákvörðunar óttast Isavia að farþegatölur næsta árs verði enn lægri en forsendurnar gera ráð fyrir.

„Við höfum skilning á aðstæðum en á sama tíma miklar áhyggjur af því að ekki sé farinn millivegur á landamærunum hvað ferðamenn varðar, sem hafa minna samneyti hér innanlands. Við teljum að með þessari ákvörðun sé veruleg hætta á því að ferðamenn verði færri en ein milljón á næsta ári, sem yrði mjög bagalegt fyrir efnahagslega endurheimt hér á landi," segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia spurður um möguleg áhrif ákvörðunarinnar.

Farþegaforsendur Isavia 2022
Farþegaforsendur Isavia 2022

Gríðarlegt tap á útflutningstekjum

Í nýlegu minnisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kemur fram að sala ferða til Íslands taki að jafnaði 8 til 12 mánuði hverju sinni, enda bóki ferðaskrifstofur 8 til 12 mánuðum fyrir brottför og ferðamenn á eiginvegum 0 til 8 mánuðum fyrir brottför. Þannig ráðist framboð flugsæta yfir sumarið 2022 að miklu leyti að því hversu mikil eftirspurnin er hjá þessum hópum á næstu tveimur til fjórum mánuðum.

Samtökunum reiknast til að harðari takmarkanir hér en í öðrum Evrópulöndum geti leitt til þess að útflutningstekjur á næsta ári verði 70 til 140 milljörðum lægri en ella.

Byggja útreikningar SAF meðal annars á upplýsingum Isavia um að nýting evrópskra flugfélaga sé 15-20% lægri á áfangastöðum með landamæratakmarkanir, að 700 þúsund ferðamenn komi til landsins í stað einnar milljónar og að tekjur af hverjum þeirra nemi annað hvort 200 þúsund krónum líkt og meðaltekjur af ferðamönnum voru árið 2019 eða 400 þúsund krónum, líkt og þær voru fyrstu sex mánuði ársins 2021.

Töpuðu Jet2 sætin væru 6,5 milljarða virði

Viðskiptablaðið sagði frá því í síðustu viku að breska flugfélagið Jet2 hefði hætt við að fljúga til Íslands næsta sumar vegna þess að harðari takmarkanir hér á landi hefðu neikvæð áhrif á bókunarstöðu.

Með því hurfu 25 þúsund flugsæti úr framboði næsta sumars, sem hefðu samkvæmt útreikningum SAF getað skilað þjóðarbúinu 6,5 milljörðum í útflutningstekjur, miðað við meðalneyslu ferðamanna á Íslandi í sumar.