Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) hefur boðað allsherjarvinnustöðvun hjá starfsmönnum Icelandair frá og með 4. ágúst næstkomandi. Tilkynningin kemur eftir að Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum og flugþjónum flugfélagsins fyrr í dag. Vísir greindi fyrst frá.

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs FFÍ, sem haldinn var rétt fyrir fimmleytið í dag, var samþykkt að boða allsherjarvinnustöðvun félagsmanna hjá Icelandair. Á heimasíðu FFÍ segir að vinnustöðvunin verði ótímabundin og hefjist kl. 00:01 þriðjudaginn 4. ágúst næstkomandi og tekur hún til allra starfa flugfreyja og flugþjóna um borð í flugvélum Icelandair.

Samninganefnd FFÍ tilkynnti Ríkissáttasemjara, í kjölfar þess að Icelandair sleit viðræðum, að hún teldi viðræður aðila árangurslausar þrátt fyrir milligöngu hans. Stjórn og trúnaðarráð félagsins var sammála þeirri afstöðu og að loknum umræðum var tillagan um vinnustöðvun lögð fram, kynnt og samþykkt.

Atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunarinnar hefst 24. júlí næstkomandi og lýkur kl. 12:00 á hádegi 27. júlí.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur Icelandair gert flugfreyjum að skila inn búningum og nafnspjöldum flugfélagsins og hafa þær frá 20. til 24. júlí til þess.