Félag fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu hefur skilað inn umsögn til fjárlaganefndar Alþingis, þar sem félagið leggst gegn þeim áformum sem kemur fram í fjárlögum fyrir árið 2019, að gistináttaskattur verði fluttur yfir til sveitarfélaga. Félagið leggst einnig gegn því að hann verði gerður hlutfallslegur, sem að sögn FHG þýðir í raun að verið er að búa til sértækan veltuskatt á mjög lítinn hluta atvinnulífsins.

Umsögn FHG má sjá í heild hér að neðan:

Félag fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu FHG, leggst eindregið gegn því að gistináttaskattur verði fluttur yfir til sveitarfélaga. Einnig leggst félagið eindregið gegn því að hann verði gerður hlutfallslegur, sem þýðir í raun að verið er að búa til sértækan veltuskatt á mjög lítinn hluta atvinnulífsins.

Gistináttaskattur nær ekki til allrar gistisölu í landinu, það eitt og sér er óásættanlegt. Upphaflega átti skatturinn að renna til uppbyggingar fjölsóttra ferðamannastaða og verndarsvæða í eigu ríkisins. En miðað við þau áform sem nú virðast vera uppi er verið að þróa skatt sem rennur að langmestu leyti í borgarsjóð Reykjavíkur, en þar falla til yfir 60% gistinátta að meðaltali yfir árið og yfir veturinn fer hlutfallið yfir 70%. Skatturinn yrði fyrst og fremst lagður á þá sem þar gista og eru ólíklegastir til að nýta þau svæði sem um ræðir.

Nokkur reynsla er kominn á þessa skattheimtu allt frá 2012. Ljóst er aðeins hluti hans fer til þess sem hann er ætlaður, það er ekki ásættanlegt. Með því að flytja hann til sveitarfélaga eykst enn hættan á því að hann fari til annars en til er ætlast. Þá sýnir reynslan að aðeins hluti markaðarins er að standa skil á þessum skatti sem eitt og sér er næg ástæða til að taka hann til endurskoðunar og leggja niður. En það er skýr krafa af hálfu FHG að gistináttaskatturinn verði aflagður. Lýsum við okkur reiðubúna til samráðs um leiðir til tekjuöflunar í hans stað.

Allar hagtölur um þessar mundir benda til lélegrar afkomu í gistiþjónustu, einkum á landsbyggðinni. Gistiþjónusta er bæði mannaflsfrek og fjármagnsfrek starfsemi, en það eru tveir stærstu kostnaðarþættir í íslensku athafnalífi. Að bæta við hlutfallslegum veltuskatti, ofan á aðra veltuskatta, s.s. virðisaukaskatt tryggingagjald, við slíkar aðstæður myndi mun hægja á og jafnvel stöðva alveg frekari uppbyggingu hótela úti á landi.