Enn sem komið er hafa andstæðingar Rússlands ekki beint refsiaðgerðum gegn helstu tekjulind þjóðarinnar - útflutningi á jarðgasi og olíu. Rússland sér Evrópu fyrir um 40 prósentum af jarðgasi og 25 prósentum af olíunotkun sinni. Talið er að tekjur Rússlands af þeirri sölu hafi numið yfir 100 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ári.

Brynjólfur Stefánsson, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum og fyrrverandi yfirmaður afleiðubókar Morgan Stanley í hráolíu, segir ljóst að áhrif viðskiptaþvingana gætu verið umtalsverð ef þau ná til olíu- og gasútflutnings Rússlands.

„Við erum ekki komin þangað enn, en Bandaríkjamenn hafa ýjað að því að slíkar þvinganir séu enn inni í myndinni. Á markaði hefur verð á rússneskri olíu lækkað töluvert mikið, þar sem fólk reynir að losa sig við hana, en verð á öðrum tegundum af olíu á borð við Brent Norðursjávarolíuna hækkað töluvert," segir Brynjólfur.

Varðandi SWIFT-greiðslukerfið segir hann að hrávöruviðskipti fari nær alltaf fram í Bandaríkjadölum og því sé mikilvægt að eðlileg greiðslumiðlun geti átt sér stað. Útilokun frá SWIFT auki viðskiptakostnað og þar með verð.

Hvað olíu varðar telur Brynjólfur að OPEC-ríkin muni reyna að standa saman og halda sig við sitt samkomulag hvað framleiðslu varðar, þó svo að þau gætu hugsanlega aukið sína framleiðslu. Hann bendir jafnframt á að Vesturlönd muni nýta varaforða sinn til að reyna að halda verðinu niðri.

„Bandaríkin hafa mikið talað um varabirgðastefnu sína (e. strategic petroleum reserves) og hafa nú ákveðið með bandamönnum sínum að setja 60 milljón tunnur á markaðinn. En ef þessi deila dregst á langinn er það einungis skammtímalausn, ekki langtímalausn," segir Brynjólfur.

Staðan sé jafnvel enn þrengri vegna ástandsins á orkumörkuðum og mikilvægis Rússlands sem útflytjanda. Brynjólfur segir krefjandi ástand og miklar sveiflur á orkumörkuðum setja Evrópuríkin í þrönga stöðu.

„Ástandið á orkumörkuðum hefur verið krefjandi undanfarið og miklar sveiflur hafa verið í verði á jarðgasi og raforku. Það er kannski ein af ástæðum þess að þjóðir hafa hikað við að setja viðskiptaþvinganir á orkumarkaðina. Hugsanlega er það ekki raunhæft og Pútín hefur örugglega tekið það með í reikninginn - Evrópa er einfaldlega svo háð útflutningi þeirra á orku," bætir Brynjólfur við.

Hins vegar sé um tvíeggjað sverð að ræða. „Fyrirtæki á borð við Gazprom, Lukoil og Rosneft eru stærstu fyrirtækin í Rússlandi, stærstu vinnuveitendurnir og þau skila langmestu inn í rússneska hagkerfið af öllum fyrirtækjum þeirra. Á móti kemur að Rússar hafa greinilega undirbúið sig og byggt upp varaforða. En ef þetta ástand dregst á langinn og Evrópuþjóðir koma sér saman um viðskiptaþvinganir á orku - hvernig sem það verður gert - neyðast Rússar til að horfa til markaða í austri með tilheyrandi kostnaði og það gæti bitið hratt í rússneska hagkerfið," en samkvæmt greiningu British Petroleum selur Rússland um 75% af öllu sínu gasi til Evrópu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .