Heildarfjöldi farþega Icelandair í innanlands- og millilandaflugi var um 125 þúsund í síðasta mánuði sem er ríflega fimmfalt meiri en í febrúar 2021. Flugframboð í febrúar var um 58% af framboði sama mánaðar árið 2019. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir febrúarmánuð sem Icelandair birti í Kauphöll í dag.

Sætanýting í millilandaflugi var 66% í febrúar samanborið við 25% á sama tímabili árið 2021 og 76% í febrúar 2019. Sætanýting var nokkuð meiri í Evrópuflugi eða um 72% en 60% í Norður-Ameríkuflugi.

Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi var um 109 þúsund, samanborið við 5 þúsund í febrúar 2021. Farþegar til Íslands voru 66.000 og frá Íslandi flugu 27.000.

„Okkur hefur tekist að byggja starfsemi Icelandair hratt upp undanfarna mánuði og bókunarstaðan hefur þróast upp á við. Áhrifa faraldursins gætir enn að nokkru leyti en við finnum fyrir jákvæðum áhrifum af afléttingum sóttvarnaraðgerða hér innanlands og í löndunum í kringum okkur. Stríðið í Úkraínu og áhrif þess skapa ákveðna óvissu en við munum halda áfram að nýta sveigjanleika í starfsemi okkar til að bregðast við þeim aðstæðum sem komið geta upp,“ segir Bogi Nils Bogason , forstjóri Icelandair.

„Í febrúar hafði veðurfar umtalsverð áhrif á flugstarfsemina en með góðri skipulagningu og tilfærslu á flugáætlun tókst starfsfólki okkar að halda þeim í lágmarki. Bókunarstaða heldur áfram að styrkjast og það er ljóst að mikill uppsafnaður ferðavilji er til staðar hjá viðskiptavinum okkar.“

Tengifarþegar voru 16 þúsund í febrúar, samanborið við 37 þúsund í janúar á þessu ári. Fækkun tengifarþega er sögð skýrast fyrst og fremst af áhrifum ómíkron afbrigðisins á markaðssvæðum félagsins auk þess sem slæmt veður í febrúar hafi haft áhrif á tengiflug á Keflavíkurflugvelli.

Farþegar í innanlandsflugi voru 16 þúsund samanborið við 14 þúsund í fyrra. Sætanýting í innanlandsflugi var um 80% samanborið við 66% í febrúar 2021. Innanlandsflugið hefur náð sér vel og farþegum hefur fjölgað um 13% það sem af er ári samanborið við sama tímabil árið 2021.

Seldum blokktímum í leiguflugi fjölgaði um 29% samanborið við febrúar 2021 og fraktflutningar héldust svipaðir á milli ára.