FISK-Seafood, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, hefur gengið frá kaupum á hlut lífeyrissjóðsins Gildis í útgerðarfélaginu Brim hf. Kaupverðið er rúmlega fimm milljarðar íslenskra króna, samkvæmt heimildum Markaðarins en Fréttablaðið greindi fyrst frá viðskiptunum í morgun.

Í frétt Markaðarins kemur fram að fyrir eignarhlutinn í Brim fékk Gildi meðal annars afhent bréf FISK-Seafood í Högum, en sjávarútvegsfyrirtækið átti þar samanlagt tæplega 4,6 prósenta hlut.

Fyrir viðskiptin fór Gildi með 8,51 prósenta hlut í útgerðarfélaginu.

Eins og Fiskifréttir fjölluðu um fyrir helgi ákvað Gildi lífeyrissjóður að greiða atkvæði gegn kaupum HB Granda [nú Brim] á sölufélögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur, en uppgefin ástæða þessa var sú að stjórnendur sjóðsins „...telja þessar fyrirætlanir ekki trúverðugar og ekki hefur verið sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til þess að ná fram sömu markmiðum, mögulega með minni tilkostnaði“ ... „Viðskipti milli tengdra aðila verða að vera hafin yfir vafa og að mati sjóðsins hefur ekki tekist að sýna fram á að þessi viðskipti séu hagfelld og nauðsynleg fyrir HB Granda,“ sagði í tilkynningu frá Gildi.

Svo fór að hluthafafundur HB Granda samþykkti með miklum meirihluta atkvæða, að kaupa sölufélögin þrjú. Greitt var fyrir kaupin með nýjum hlutum í HB Granda. Verðmæti viðskiptanna voru um 4,4 milljarðar.

Þá var tillaga um að breyta nafni HB Granda í Brim einnig samþykkt með rúmlega 90% atkvæða hluthafa. Handhafar 9% hlutar skiluðu auðu og 0,05% voru á móti nafnabreytingunni.