Árni Pétur Jónsson tók við starfi forstjóra Skeljungs fyrir tæpum tveimur mánuðum. Hann segir að fyrstu vikurnar í starfi hafi verið viðburðaríkar. „Þessar fyrstu vikur hafa verið mjög skemmtilegar. Það er búið að vera nóg að gera og margt sem maður hefur þurft að setja sig inn í. Þetta er stórt fyrirtæki og því í mörg horn að líta. En byrjunin lofar svo sannarlega góðu."

Ólíkt öðrum olíufélögum hér á landi, fer starfsemi Skeljungs ekki einungis fram á innlendri grundu. Félagið hefur haslað sér völl í Færeyjum en færeyska dótturfélagið P/F Magn er að fullu í eigu Skeljungs. Í apríl á síðasta ári festi P/F Magn svo kaup á 70% hlut í þjónustufyrirtækinu Demich í Færeyjum, en Demich sérhæfir sig í umhverfisvænum húshitunarlausnum. Árni Pétur segir að starfsemin í Færeyjum gangi mjög vel en segir þó að hann telji það há Skeljungi að margir fjárfestar viti lítið um starfsemi félagsins í Færeyjum.

„Markaðurinn í Færeyjum er aðeins öðruvísi og helgast það fyrst og fremst af því að þeir hita húsin sín með olíu. Það gerir það að verkum að þó að þeir séu fámenn þjóð, þá er eldsneytisnotkunin ansi mikil. Síðan eru Færeyingar mjög öflugir í sjávarútveginum og má því flokka þá sem stórnotendur. Magn er mjög öflugt fyrirtæki í Færeyjum, með sterka markaðshlutdeild á sínum markaði. Þeir reka bæði bensínog þjónustustöðvar, og þjónusta bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Það sem hefur hjálpað þeim og þ.a.l. okkur er það að efnahagsleg skilyrði í Færeyjum eru mjög góð. Þeir eru staddir á svipuðum slóðum og við Íslendingar vorum staddir á árunum 2006 til 2007 en meðvitaðir um þau vandræði sem við lentum í og hafa því passað sig á því að skuldsetja sig ekki of mikið. Það er allt í blóma og mikill uppgangur, lítið atvinnuleysi og almennt má segja að velmegun sé mikil.

Það hefur sýnt sig í uppgjörunum okkar hvað Magn er rekstrarlega gott félag - þeir vigta mjög mikið inn í okkar samstæðu. Hins vegar má segja að það hafi háð okkur aðeins að margir virðast ekki skilja hvað við erum að gera í Færeyjum. En við erum að reka þarna mjög flott fyrirtæki sem er í sambærilegum rekstri og við erum í hér á Íslandi. Kaupin á Magn hafa reynst okkur mjög hagkvæm og kaupin á Demich voru sömuleiðis mjög sterk."

Nánar er rætt við Árna Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .