Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 101 þúsund í nýliðnum marsmánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu . Ríflega fjórðungur brottfara var tilkominn vegna Breta.
Á fyrstu þremur mánuðum landsins komu um 245 þúsund erlendir farþegar til landsins sem er margfalt meira en í fyrra. Hins voru erlendir farþegar nærri tvöfalt fleiri á fyrsta ársfjórðungi 2019.
Í greiningu Íslandsbanka er bent á að fjöldi erlendra ferðamanna á fyrsta ársfjórðungi hafi verið svipaður og á lokafjórðungi síðasta árs. Íslandsbanki ályktar því að tekjur af erlendum ferðamönnum hafi verið svipaðar á síðustu tveimur ársfjórðungum.
Á síðasta fjórðungi ársins 2021 voru tekjur af erlendum ferðamönnum um 59 milljarðar króna samkvæmt tölum Hagstofunnar. Greining Íslandsbanka bendir á að tekjur af útflutningi áls voru 94 milljarðar og sjávarafurða 86 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi.
„Bati ferðaþjónustunnar verður væntanlega hraðari en áætlað var í janúar. Þannig gætu um 1,5 milljónir ferðamanna sótt landið heim í ár og útflutningstekjur greinarinnar gætu sem best orðið í líkingu við árið 2016. Það ár voru tekjur af erlendum ferðamönnum 465 milljarðar króna sem svaraði til 38% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins á árinu,“ segir í greininni.