„Þarna eru lögð til skref til að minnka umsvif hins opinbera á samkeppnismarkaði hvað varðar auglýsingasölu og í öðru lagi munu þessar breytingar stuðla að mun betra Ríkisútvarpi öllum til heilla." Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Magnúsar Ragnarssonar, framkvæmdastjóra sölusviðs hjá Símanum, um frumvarp Óla Björns og fleiri Sjálfstæðismanna um að taka RÚV af auglýsingamarkaði.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir , ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, sagði á málþingi í húsakynnum Blaðamannafélagsins að hún vilji líta til Danmerkur hvað varðar umhverfi fjölmiðla. Þar eru ríkisreknu miðlarnir ekki á auglýsingamarkaði og styrkir veittir til einkarekinna miðla.

Í umsögninni gagnrýnir Magnús harðlega þá styrki sem ríkið hefur veitt til fjölmiðla og segir það „óheillaskref" að hefja ríkisstuðning við fréttamiðla í stað þess að taka hið opinbera af þeim markaði. „Slíkt er að mati Símans sóun á opinberum fjármunum enda ekkert sem segir að allir fjölmiðlar eigi rétt á að lifa á samkeppnismarkaði."

Magnús bætir við að það sé eitthvað rangt við það að ríkið setji sjálft sig í miðju atburðarrásarinnar, tappi fyrst auglýsingafé af samkeppnismarkaðnum, en taki svo lítinn hluta þess fjár og skammti öllum miðlum fé sem uppfylla vissar opinberar kröfur, óháð rekstrargrundvelli viðkomandi miðils. „Heilbrigðari leikvöllur væri þannig að vel reknir miðlar sem fólk hafi áhuga á ættu möguleika á að lifa á eigin verðleikum," segir Magnús.

„Ánægjuleg afleiðing þess að hið opinbera fari af samkeppnismarkaði verður svo miklu betra ríkisútvarp. Ríkisútvarp þar sem dagskrárákvarðanir verða loks teknar af dagskrárstjóra en ekki auglýsingadeild."