Alls sóttu fjórtán einstaklingar um embætti forstjóra Landspítalans en umsóknarfrestur rann út á miðnætti. Særstur hluti umsækjenda kemur úr stétt lækna eða starfa innan spítalans.

Páll Matthíasson tilkynnti það fyrir nær sléttum mánuði að hann hygðist láta af störfum sem forstjóri og var staðan auglýst í kjölfarið. Síðan þá hefur Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir verið settur forstjóri spítalans en hún er meðal þeirra sem sækist eftir starfinu.

Meðal annarra umsækjenda má nefna Björn Óla Hauksson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Isavia, Ólaf Baldursson, framkvæmdastjóra lækninga á LSH, Sigríði Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar, Sigurð Erlingsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs og Reyni Arngrímsson, lækni og prófessor.

Hér að neðan má sjá listann í heild sinni:

  • Björn Óli Ö Hauksson, verkfræðingur
  • Elísa Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur
  • Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri
  • Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri mannauðsskrifstofu
  • Hákon Hákonarson, læknir
  • Jan Triebel, læknir
  • Jón Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga
  • Kristinn V Blöndal, ráðgjafi
  • Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri
  • Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga
  • Reynir Arngrímsson, læknir og prófessor
  • Runólfur Pálsson, starfandi framkvæmdastjóri meðferðarsviðs
  • Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar
  • Sigurður Erlingsson, viðskiptafræðingur