Það verða öll flugfélög að koma vel undan sumaráætluninni ef þau ætla ekki aftur til fjárfesta í haust að biðja um meira fé,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.

Hann bendir á að flugfélög séu mörg enn í sárum eftir erfið ár í heimsfaraldrinum. Stærsti óvissuþátturinn er hve langvinn átökin verða í Úkraínu og hve mikil áhrifin verða á olíuverð og ferðavilja fólks.

Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu hefur olíuverð rokið upp og kostar tonnið af flugvélaeldsneyti nú um 1.200 dollara.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði nýlega við Fréttablaðið að forsendur viðskiptaáætlunar Icelandair um að skila hagnaði á árinu með um 3-5% rekstrarhagnaðarhlutfalli miðuðu við að flugvélaeldsneyti kostaði um 800 dollara tonnið. Þá gerði viðskiptaáætlun Play sem kynnt var við skráningu félagsins á síðasta ári ráð fyrir að meðalverð á flugvélaeldsneyti stæði í um 660 dollurum á tonnið árin 2022-2024.

„Forstjórar flugfélaga í Evrópu og Bandaríkjunum hafa að undanförnu gefið út að hækkun á olíuverði muni endurspeglast í fargjöldunum. Ég held að íslenskir neytendur mega því reikna með að fargjöld hækki á næstunni,“ segir Kristján.

Hins vegar eigi eftir skýrast hvort flugfélögin geti að öllu leyti velt auknum kostnaði yfir á neytendur. „Árið 2018, þegar olíuverð var álíka og fyrir innrásina í Úkraínu, kvörtuðu stjórnendur Icelandair sáran undir því að fargjöld endurspegluðu ekki kostnaðarverðshækkanir, þar á meðal á olíu. Þá komu þeir ekki auknum kostnaði út í verðlagið.“

Eldsneytiskostnaður á hraðri uppleið

Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs segir óvissuna enn verulega um hvernig eldsneytisverð mun þróast. „Ef við gerum ráð fyrir að eldsneytisverð haldist á áþekkum slóðum mun það hafa áhrif á kostnað og afkomu flugfélaganna á árinu, sérstaklega hjá þeim sem ekki hafa gert samninga um eldsneytisvarnir. Undir venjulegum kringumstæðum er eldsneytiskostnaður um 20-25% af rekstrarkostnaði flugfélaga en miðað við núverandi eldsneytisverð kann það hlutfall að hækka upp í 30-40%.“ Kristján bendir í þessu samhengi á að Icelandair hafi að mjög takmörkuðu leyti fest eldsneytisverð eftir mitt þetta ár og Play hafi ekki enn gert eldsneytisvarnarsamninga en hefur boðað slíka samninga.

„Ef olíuverð helst hátt þyngist róðurinn allsvakalega því þetta er svo stór hluti af kostnaði flugfélaganna,“ segir Kristján.

Elnæs bendir á að jafnvel þó að stríðið sjálft verði skammvinnt séu líkur á að viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum standi lengur yfir, jafnvel árum saman. Gerist það séu líkur á að eldsneytisverð haldist einnig hátt.

Þá fljúgi íslensku flugfélögin almennt lengri flugleggi og hafi minni heimamarkað en erlendir samkeppnisaðilar og verði að halda sem mestri sætanýtingu. Félögin verða þó að miða verðlagningu sína við samkeppnisaðilana og því eru takmörk fyrir því hve mikið er hægt að hækka verð.

Enn von um ágætt sumar

Verði fljótlega bundinn endi á stríðið og það hafi takmörkuð áhrif á ferðavilja eru forsendur fyrir því að sumarið geti orðið ágætt fyrir flugfélög að sögn Elnæs. Þá munu Icelandair og Play geta keppt nokkurn veginn á jafnréttisgrundvelli við norrænu flugfélögin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .