Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 3% í 460 milljóna viðskiptum í dag og er nú komið upp í 2,01 krónu á hlut. Dagslokagengi flugfélagsins hefur ekki verið hærra frá því í lok febrúar. Þá hækkaði gengi Play einnig um 2,4% í 133 milljóna viðskiptum og stendur nú í 25,3 krónum.

Það var hins vegar Eimskip sem hækkaði mest á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag eða um 3,6%. Gengi flutningafélagsins endaði daginn í 570 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra við lokun markaða. Hlutabréf Haga náðu einnig nýjum hæðum í 83,5 krónum á hlut eftir 1,8% hækkun í dag.

Bankarnir þrír á aðalmarkaðnum hækkuðu allir í viðskiptum dagsins. Gengi Íslandsbanka hækkaði um 1,3% í hálfs milljarðs króna veltu og er nú komið í 26,6 krónur.

Hlutabréfaverð átta félaga á aðalmarkaðnum féll í dag en hins vegar var tiltölulega lítil velta með bréfin. Skel fjárfestingafélag lækkaði mest eða um 4,5% í 53 milljóna viðskiptum. Gengi Skeljar er þó enn sögulega mjög hátt og stendur nú í 17,1 krónu.