Sést hefur til tveggja glæsisnekkja í eigu rússneska ólígarksins og eiganda enska knattspyrnuliðsins Chelsea, Roman Abramovich, bundnar við höfn í Tyrklandi. Reuters greinir frá þessu en heimildir miðilsins herma að Abramovich og aðrir ólígarkar hafi í hyggju að setjast að og fjárfesta í Tyrklandi. Það kemur til vegna þess að Tyrkland er ekki meðfylgjandi þeim efnahagsþvingunum sem væstræn ríki hafa lagt á Rússland vegna innrásarinnar í Úkraínu, þrátt fyrir að hafa gagnrýnt innrásina harðlega.
Hluti af efnahagsþvingunum sem vestrænu ríkin hafa lagt fram gegn Rússum hafa falist í að frysta eignir ólígarka og beita sér gegn fjárfestingum þeirra í löndunum. Hefur Abramovich til að mynda verið gert að selja Chelsea af breskum stjórnvöldum og mun kaupverðið ekki renna í vasa Rússans. Talið er að ólígarkarnir líti á Tyrkland sem ákjósanlegt land til að fjárfesta innan vegna andstöðu landsins í garð efnahagsþvingana.
Eclipse, sem er ein stærsta snekkja heims og er í eigu Abramovich, ku liggja við höfn á Marmaris í suðvestur Tyrklandi. Að auki liggur önnur snekkja sem sögð er í hans eigu, Solaris, við höfn á Bodrum. Þá var greint frá því á dögunum að einkaþota Abramovich hafi ferjað hann til Istanbúl.
Heimildarmaður Reuters í Ankara segir að í nýlegum samræðum hafi Abramovich sagt frá því að hann og aðrir auðugir Rússar, sem viðskiptaþvingunum hefur verið beint gegn, séu með það til skoðunar að hefja fjárfestingar í Tyrklandi vegna afstöðu stjórnvalda þar til viðskiptaþvingananna.