„Nýja hlutverkið er afar skemmtilegt og auðvitað krefjandi líka. Þetta er heilmikil breyting í sjálfu sér en þó þekki ég fyrirtækið orðið gríðarlega vel enda tekið virkan þátt í uppbyggingu þess undanfarin áratug,“ segir Þorsteinn Pétur Guðjónsson, nýr forstjóri Deloitte.

Á haustmánuðum tók Þorsteinn við stjórnartaumunum af Sigurði Páli Haukssyni en forstjórinn hafði áður setið í framkvæmdaráði Deloitte, sem sviðsstjóri endurskoðunar og reikningsskila, frá árinu 2014. Ferill hans þar er þó öllu lengri. Þorsteinn hóf störf hjá Deloitte árið 2000, hlaut löggildingu sem endurskoðandi sex árum síðar, kom í eigendahópinn 2008 og var yfir reikningsskilahluta þess frá 2010.

Viðburðarík saga Deloitte á heimsvísu spannar orðið 175 ár en aldur þess innanlands telur kvartöld. Þó má rekja ættir þess aftur til miðrar síðustu aldar en fyrirtækið var stofnað á grunni Endurskoðunarstofu Sigurðar Stefánssonar. Þegar Deloitte hóf starfsemi voru starfsmenn 25 talsins og veltan á ársgrundvelli um 100 milljónir króna. Nú er veltan 5,1 milljarður króna og fjöldi starfsmanna um tífalt hærri. Það er því óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá.

„Það hefur orðið gífurleg breyting á eðli og umfangi starfseminnar frá því að ég hóf hér störf upp úr aldamótum. Þá var meginþorri starfseminnar endurskoðun og reikningsskil, aðstoð við bókhald og launavinnslu auk einhverrar tilfallandi ráðgjafar. Undanfarin ár hefur verið aukin áhersla á að útvíkka markvisst þá þjónustu sem við bjóðum og mikil uppbygging átt sér stað í þá átt.“ segir Þorsteinn. „Meðal þess sem við höfum byggt upp er áhætturáðgjöf, fjármálaráðgjöf, upplýsingatækni- og stjórnendaráðgjöf auk skatta- og lögfræðiráðgjafar.“

Áherslubreytingin sést glögglega á því hvert tekjur félagsins eiga rætur að rekja en nú stafar um helmingur þeirra frá starfsemi tengdri ráðgjöf. Um talsverða aukningu er að ræða en fyrir fimm árum var um fjórðungur tekna til kominn vegna ráðgjafar en þrír fjórðu vegna endurskoðunar og reikningsskila. „Ef við horfum til Deloitte úti í heimi þá fer þáttur endurskoðunar sífellt minnkandi. Nú orðið er algengt að tekjur af endurskoðun séu um fjórðungur,“ segir forstjórinn. „Ég, sem endurskoðandi að upplagi, tel þetta jákvæða þróun. Þessi nýja þjónusta, sem er í örum vexti, styður ofboðslega vel við endurskoðunina, eykur gæði hennar og einfaldar starfið.“

Annað svið sem hefur verið í miklum vexti undanfarin ár er fjármálaráðgjöf Deloitte, þar sem verðmatsverkefni og áreiðanleikakannanir í tengslum við kaup og samruna félaga eru fyrirferðarmikil. „Fjármálaráðgjöf Deloitte hefur náð eftirtektarverðum árangri í kaupog söluferlum undanfarin ár, þar má nefna Hreinsitækni, Íspan, Borgarplast, Stoð, Kaffitár og svo núna nýlega kaup Orkla á fimmtungshlut í Nóa Síríus. Svona verkefni eru mikil að umfangi og umtalsverðir hagsmunir undir. Það er því mikilvægt að ferlið sé vel skipulagt og stýrt frá upphafi.“

Nánar er rætt við Þorstein í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .