Sigurður er alinn upp á Kirkjubæjarklaustri, og fór svo til bæjarins þar sem hann gekk í Menntaskólann við Hamrahlíð. Að menntaskólanum loknum hélt hann til frekara náms við Háskólann á Bifröst.

Þar lagði hann stund á lögfræði og útskrifaðist með ML í faginu árið 2007.  Þaðan lá leið Sigurðar til Arion banka, en þar hóf hann starfsferil sinn sem lögmaður. Árið 2010 öðlaðist hann svo réttindi til þess að starfa sem héraðsdómslögmaður.

Ári síðar sagði Sigurður upp hjá bankanum og stofnaði sína eigin lögmannsstofu ásamt kollega sínum. Stofan hét Fullrétti. Seinna meir sameinaðist Fullrétti svo annarri lögmannsstofu, og breytti þá um heiti og varð Arctic lögmenn.

Lögmaður í eyjum

Í byrjun ársins 2015 bauðst Sigurði svo að starfa fyrir Pacta lögmenn í Vestmannaeyjum, sem og hann gerði allt fram til desember síðasta árs. Sigurði fannst skemmtileg og áhugaverð reynsla að vinna hjá lögmannstofu í Vestmannaeyjum. Honum fannst gaman að kynnast samfélagi Vestmannaeyinga og hvernig það gekk fyrir sig.

„Það er svolítið ólíkt að vera lögmaður í Reykjavík og úti á landi. Maður getur kannski leyft sér að vera aðeins sérhæfðari í Reykjavík,” segir Sigurður. „Þegar þú ert að vinna úti á landi þá þarftu í rauninni að geta tekið að þér hvaða mál sem er, enda lítill markaður. Maður þarf bara að geta þjónustað þann markað í öllu sem kemur upp.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .