„Við erum þrír félagar úr verkfræði og tölvunarfræði með allnokkra reynslu á ýmsum sviðum sem varða gögn, módeleringu, samþættingu og birtingu gagna. Við ákváðum bara að slá til og stofna nýtt þjónustufyrirtæki þar sem við framtíðarvæðum gagna- og tækniumhverfi okkar viðskiptavina," segir Helgi Hrafn Halldórsson, einn stofnenda Maven.

Maven samanstendur af fimm manna teymi eigendanna Helga, Péturs Sævars Sigurðarsonar, Viktors Ara Ásrúnarsonar, Ragnars Más Magnússonar auk Alexöndru Cruz Buenano. „Við gerðum fyrst greiningu á því fyrir hvað fyrirtækið á að standa og settum okkur mjög háleit og skemmtileg markmið. Við lögðum áherslu að kynna nýja tækni og nýja nálgun á gagnavinnslu og framsetningu."

Ólík nálgun fyrir ólíka geira

Helgi segir Maven njóta góðs af því að vinna með stórum fyrirtækjum þar sem mikið magn gagna er í boði. „Í dag erum við meðal annars að þróa skemmtilega og nýstárlega hluti í orku- og ferðageiranum." Helgi bætir við að lausnir fyrirtækisins séu þó breytilegar. „Þjónusta okkar gagnvart sumum fyrirtækjum er rekstur núverandi umhverfis og að sjá til þess að gögnin séu rétt. Hjá öðrum erum við í fararbroddi við nýtingu nýrrar tækni." Í orkugeiranum segir Helgi fyrirtækið styðja og þróa gagnavinnslu og greiningar með hliðsjón af ákveðnu eftirlitshlutverki, með áherslu á rekstrarhagkvæmni og rekstraröryggi.

„Nokkur þeirra gagnaumhverfa sem við vinnum með viðskiptavinum okkar gerir þeim kleift að vinna með flæðandi gögn (e. streaming) og að taka ákvarðanir í rauntíma, sem er afar dýrmætt fyrir þá. Svona getum við þjónustað fyrirtæki með öflun nýrrar þekkingar út frá djúpri gagnagreiningu, en öllu jafna leynast ógrynni af mjög nytsamlegum upplýsingum í kerfum fyrirtækja. Fyrirtæki fá þannig heilmikið áhugavert til að vinna út frá og auka líkurnar á að öðlast forskot á markaði," segir Helgi.

Gögn eru drifkraftur í mörgu

Helgi segir eftirspurn eftir þjónustu á sviði upplýsingatækni hafa aukist mikið á undanförum árum. „Stjórnendur og fólk almennt eru að átta sig á mikilvægi og virði gagna. Gögn eru drifkraftur í svo mörgu, til að mynda í gervigreind og vélnámi (e. machine learning). Að auki bendir Helgi á að atburðadrifin (e. eventdriven) nálgun á gögn sé stækkandi hluti gagnalausna í geiranum. „Það er ekki bara vistun gagna sem skapar virði. Fyrirtæki þurfa að greina þjónustuna og viðbrögð viðskiptavina og nýta þekkinguna til að búa til aukið virði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .